Xavi ætlaði að hætta hjá Barcelona en snerist síðan hugur og ákvað að halda áfram. Hann var hins vegar rekinn í síðustu viku eftir að hafa gagnrýnt fjárhagsstöðu Barcelona.
Barcelona vann 1-2 sigur á Sevilla í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar í gær. Það var síðasti leikur liðsins undir stjórn Xavis. Barcelona endaði í 2. sæti með 85 stig, tíu stigum á eftir meisturum Real Madrid.
Fastlega er búist við því að Hansi Flick, fyrrverandi þjálfari Bayern München og þýska landsliðsins, taki við stjórastarfinu hjá Barcelona. Eftir leikinn í gær var Xavi spurður hvort hann væri með einhver skilaboð til eftirmanns síns.
„Hann mun þjást. Þetta er erfitt starf og þú þarft að vera þolinmóður,“ sagði Xavi með bros á vör. Hann er ánægður með hvað hann afrekaði sem stjóri Barcelona.
„Mér finnst að starf okkar hafi ekki verið nógu mikils metið. Þegar ég tók við var liðið í 9. sæti en við enduðum í 2. sæti. Svo unnum við deildina á næsta tímabili.“
Xavi, sem er 44 ára, lék nánast allan sinn feril með Barcelona og tók svo við liðinu í nóvember 2021. Hann var áður við stjórnvölinn hjá Al Sadd í Katar.