Línur eru löngu farnar að skýrast í spænsku deildinni og í raun er ekkert sem getur breyst á toppi deildarinnar nú þegar aðeins lokaumferðin er eftir. Úrslit úr leikjum kvöldsins þýða þó að Cadiz fylgir Granada og Almeria niður um deild.
Þrátt fyrir að lítil spenna sé í topp- og Evrópubaráttunni á Spáni var þessi næstsíðasta umferð hin mesta skemmtun. Alls voru 32 mörk skoruð í tíu leikjum, en hvergi voru mörkin þó fleiri en í leik Villarreal og Real Madrid.
Arda Guler og Joselu sáu til þess að gestirnir í Real Madrid komust í 2-0 eftir hálftíma leik áður en Alexander Sorloth minnkaði muninn fyrir heimamenn á 39. mínútu.
Lucas Vazquez og Arda Guler bættu hins vegar sínu markinu hvor við fyrir hálfleik og Madrídingar leiddu því 4-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Alexander Sorloth hafði hins vegar engan áhuga á því að tapa leiknum. Hann skoraði annað mark sitt á 48. mínútu áður en hann fullkomnaði þrennuna fjórum mínútum síðar. Hann fullkomnaði svo endurkomu heimamanna á 56. mínútu með sínu fjórða marki í leiknum, en öll þrjú mörkin sem hann skoraði í síðari hálfleik komu eftir stoðsendingu frá Gerard Moreno. Niðurstaðan varð því 4-4 jafntefli í ótrúlegum leik
Önnur úrslit
Athletic Bilbao 2-0 Sevilla
Atlético Madrid 1-4 Osasuna
Barcelona 3-0 Rayo Vallecano
Real Betis 0-2 Real Sociedad
Cadiz 0-0 Las Palmas
Granada 1-2 Celta Vigo
Mallorca 2-2 Almeria
Valencia 1-3 Girona