Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Alltaf kl. 06:45 en snoosa nokkrum sinnum áður en ég kem mér í gang. Nema þá góða sumardaga sem ég fer á mótorhjólinu í vinnuna, þá er ég mjög snöggur á fætur.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Hlusta á sjöfréttir með einni brauðsneið og vatnsglasi, fer síðan að tékka á krökkunum hvenær þau eiga að mæta þann daginn í skólann.“
Hvaða almennu heimilisverki telur þú þig sinna svo vel að orðið ,,framúrskarandi" ætti best við?
Ég tel mig sinna ryksugunni á heimilinu með einstakri lagni þó ég segi sjálfur frá.
Hef nýtt tímann sem ég ryksuga í að hlusta á eitthvað gott podcast svo verkefnið er bara alls ekki svo leiðinlegt.
Þessa dagana er ég að hlusta á „The history of Curb your enthusiasm“ enda leiður yfir að þessi frábæra Curb sería sé komin á enda.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Stór og spennandi verkefni framundan þessa dagana sem fylgir nýju starfi. Ég er nýtekinn við sem forstjóri Securitas en þar starfar stór hópur af frábæru fólki sem gerir starfið og verkefnin framundan ennþá skemmtilegri.
Við leggjum mestu áherslu á öryggi og þjónustu við okkar viðskiptavini og ég hlakka mikið til að demba mér að fullu í þau verkefni með þennan góða hóp sem ég hef mér við hlið.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég reyni að hafa flest verkefnin skrifuð niður og fara yfir í lok dags það sem þarf að gera daginn eftir.
Annars er mjög mikilvægt að hafa jafnvægi milli funda og skrifborðsvinnu og setja vinnudaginn þannig upp að skrifborðssetan sé ekki of löng í einu. Ekki meiri speki en það, en hefur virkað ágætlega fyrir mig.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Langar að segja að ég fari alltaf snemma að sofa en það á það til að dragast þegar maður festist yfir einhverjum góðum kóreskum þáttum með konunni, en oftast um ellefu á kvöldin.“