Fótbolti

Xavi aftur brjálaður: „Þetta er til skammar og við ætlum ekki að þegja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xavi hefur ekki verið sáttur með dómgæsluna í síðustu tveimur leikjum Barcelona.
Xavi hefur ekki verið sáttur með dómgæsluna í síðustu tveimur leikjum Barcelona. getty/Diego Souto

Xavi, knattspyrnustjóri Barcelona, fór mikinn í gagnrýni sinni á dómara leiksins gegn Real Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í gær.

Jude Bellingham tryggði Real Madrid sigur á Barcelona með marki á elleftu stundu í annað sinn á tímabilinu. Madrídingar unnu leikinn, 3-2, og eiga Spánarmeistaratitilinn vísan.

Xavi var afar ósáttur við að mark Lamines Yamal í fyrri hálfleik hafi ekki fengið að standa. Ekki er notast við marklínutækni í spænsku úrvalsdeildinni og erfitt var að sjá á myndbandi hvort boltinn fór inn fyrir eða ekki.

„Ég ætla ekki að segja neitt um dómarann því ég verð dæmdur í bann ef ég geri það en allir sáu þetta. Við vorum betra liðið í kvöld og áttum skilið að vinna,“ sagði Xavi í leikslok. Hann stóð samt ekki við orð sín og gagnrýndi dómara leiksins harðlega.

„Hann tók ekki eina rétta ákvörðun í leiknum. Þetta er til skammar og við ætlum ekki að þegja. Ég vonaðist til að dómarinn yrði annað hvort ósýnilegur eða tæki réttar ákvarðanir en hann var hvorugt.“

Xavi var einnig hundfúll með dómgæsluna eftir tap Barcelona fyrir Paris Saint-Germain, 1-4, í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn.

Xavi hættir sem stjóri Barcelona eftir tímabilið. Hann tók við liðinu í nóvember 2021. Á síðasta tímabili gerði hann Barcelona að spænskum meisturum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×