Enski boltinn

Southgate og Frank í sigti Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Gareth Southgate hefur stýrt United-manninum Marcus Rashford í enska landsliðinu.
Gareth Southgate hefur stýrt United-manninum Marcus Rashford í enska landsliðinu. Getty/Adam Davy

Bandaríski íþróttamiðillinn ESPN hefur heimildir fyrir því að nýir forráðamenn Manchester United séu með þrjá stjóra til skoðunar sem mögulega arftaka Hollendingsins Eriks ten Hag.

Tekið er fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um að láta Ten Hag fara. Sir Jim Ratcliffe og hans fólk í Ineos Group, sem nú sér um fótboltarekstur United eftir að hafa eignast 27,7% hlut í félaginu í síðasta mánuði, vill hins vegar hafa vaðið fyrir neðan sig.

Þess vegna er nú verið að vega og meta kosti þeirra Roberto De Zerbi, Thomas Frank og Gareth Southgate. Samkvæmt heimildum ESPN koma þó fleiri stjórar til greina.

De Zerbi er stjóri Brighton, Frank stýrir Brentford og Southgate hefur stýrt enska landsliðinu í átta ár.

Ineos-menn eru sagðir staðráðnir í að vera vel undirbúnir í sumar þar sem að ljóst sé að Liverpool, Bayern München og Barcelona hafi þegar hafist handa við að ráða nýja stjóra.

United fékk Ten Hag frá Ajax í júní 2022 og samdi við hann til þriggja ára, með möguleika fyrir United á að framlengja þann samning um eitt ár. Pressa er á Hollendingnum að tryggja United sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og staðan ekki góð, en eftir töp gegn Fulham og Manchester City er United ellefu stigum á eftir Aston Villa sem er í 4. sæti.

Mögulegt er að 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar muni einnig gefa sæti í nýrri útgáfu Meistaradeildarinnar á næstu leiktíð, en United er sex stigum á eftir Tottenham sem auk þess á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×