Tónlist

Langaði að ramma inn ör­væntinguna

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Lífið á Vísi kynnir frumsýningu á tónlistarmyndbandi fyrir Natatorium.
Lífið á Vísi kynnir frumsýningu á tónlistarmyndbandi fyrir Natatorium. Aðsend

Lífið á Vísi kynnir frumsýningu á tónlistarmyndbandi við ástsæla lagið Hvers vegna varst’ekki kyrr, hér í ábreiðu Sölku Valsdóttur, neonme, fyrir kvikmyndina Natatorium.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið:

Klippa: neonme ft. ILMUR - Hvers vegna varst'ekki kyrr

Salka og Helena Stefánsdóttir, leikstjóri og höfundur Natatorium, vildu finna lag sem hefði tregafullan texta með ákveðnu vonleysi sem er einmitt þema sem tengist kvikmyndinni. Salka rammar inn örvæntinguna og uppgjöfina sem er að finna í textanum á þessari ábreiðu. Salka syngur lagið sjálf ásamt Ilmi Maríu Arnardóttur sem fer með hlutverk Lilju í kvikmyndinni.

Lag og texti Hvers vegna varst’ekki kyrr er eftir Jóhann G. Jóhannsson og má finna á sólóplötu Pálma Gunnarssonar Hvers vegna varst’ekki kyrr? sem kom út 1980.

Langaði að ramma inn örvæntinguna

Um val á lagi og gerð ábreiðunnar hefur Salka Valsdóttir þetta að segja:

„Helena hafði samband við mig áður en að tökur á myndinni hófust og bað mig um að útsetja ábreiðu af frægu íslensku lagi fyrir kvikmyndina. Lagið þurfti að vera tilbúið fyrir tökur þar sem aðalpersóna myndarinnar, leikin af Ilmi Maríu Arnardóttur, átti að dansa við lagið í einni senu. Ég vissi að ábreiðan þyrfti að vera dansvæn og að lagið þyrfti að hljóma eins og eitthvað sem unglingsstelpum þætti gaman að syngja.

Mig langaði að velja lag sem fólk þekkir og tengir við en reyna að vinna ábreiðuna þannig að lagið gæti vakið upp nýjar tilfinningar hjá fólki. Þetta lag er fullkomið til þess þar sem textinn er svo ótrúlega fallegur og harmþrunginn en upprunalega útgáfa lagsins gerir frekar lítið úr innihaldi textans.

Lagið er frekar létt og leikandi í upprunalegri útgáfu en mig langaði að ramma inn örvæntinguna og uppgjöfina sem textinn felur í sér á ábreiðunni. Ég hef alltaf dýrkað þetta lag! Ég hef dansað við það í ótal heimapartýum og sett það á í mörgum bílferðum úti á landi. Þar var mikill heiður og ótrúlega skemmtilegt að fá að gera nýja útgáfu af laginu.“

Salka Valsdóttir notast við listamannsnafnið neonme.Stilla úr myndbandi

Vonleysi og þrá

Helena Stefánsdóttir segir samstarfið við Sölku hafa gengið mjög vel.

„Textinn í Hvers vegna varst’ekki kyrr tengist sterkt persónum myndarinnar, lýsir þeirra innra lífi; einmanaleika, vonleysi og þrá í eitthvað sem við eigum ekki. Salka nálgaðist verkefnið á nýstárlegan hátt, hún gefur laginu nýtt líf á sama tíma og hún sýnir eldri útgáfunni virðingu.

Ég vona að fólk tengi við lagið vegna þess að það þekki það og að lagið takið flugið í þessum nýja búningi. Það er skemmtilegt að hugsa að yngri kynslóðir fái að njóta lagsins.“

Hér má sjá stillu úr kvikmyndinni Natatorium: 

Skelfilegar afleiðingar að komast inn í gjörningahópinn

Í fréttatilkynningu um myndina segir: 

„Kvikmyndin Natatorium segir frá ungri stúlku, Lilju sem kemur til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf í alþjóðlegan gjörningahóp. Hún ákveður að dvelja hjá ömmu sinni Áróru og afa sínum Grími sem hún hefur ekki séð lengi vegna ósættis í fjölskyldunni. 

Þegar líður á dvöl Lilju fer ýmislegt undarlegt að koma upp á yfirborðið og ljóst er að það sem hefur sundrað fjölskyldunni er hrikalegt leyndarmál sem engin þorir að tala um. Þegar Lilja er tekin inn í listahópinn býður Áróra fjölskyldunni heim til að fagna og hefur það skelfilegar afleiðingar í för með sér.“

Helena Stefánsdóttir er handritshöfundur og leikstýra Natatorium. Elin Petersdottir og Ilmur María Arnardóttir fara með aðalhlutverk. Með önnur hlutverk fara Stefanía Berndsen, Jónas Birkir Alfreðsson, Valur Freyr Einarsson, Arnar Dan Kristjánsson, Stormur Jón Kormákur Baltarsarsson og Kristín Pétursdóttir. Myndin er framleitt af Sunnu Guðnadóttur fyrir Bjartsýn Films. Myndin er styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands og Finnska kvikmyndasjóðnum með stuðningi frá RÚV, SVT og YLE. Natatorium verður frumsýnd þann 23. febrúar á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×