Fótbolti

Úr­slita­leikur HM 2026 verður spilaður í New Jersey

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Metlife leikvangurinn er heimavöllur NFL-liðanna frá New York borg. Leikvangurinn hýsti Super Bowl leikinn árið 2014.
Metlife leikvangurinn er heimavöllur NFL-liðanna frá New York borg. Leikvangurinn hýsti Super Bowl leikinn árið 2014. Getty/John Moore

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur ákveðið það hvar leikirnir verða spilaðir á næsta heimsmeistaramóti karla í fótbolta sem fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada sumarið 2026.

Mesta spennan var í kringum það hvar úrslitaleikurinn yrði spilaður. Nú er það ákveðið að úrslitaleikurinn fer fram á MetLife leikvanginum í New Jersey 19. júlí 2026 en þetta er heimavöllur NFL-liðanna New York Giants og New York Jets. 

Þegar Bandaríkjamenn héldu HM í fótbolta síðast árið 1994 var úrslitaleikurinn spilaður á Rose Bowl á Los Angeles svæðinu.

Að þessu sinni stóð valið á milli MetLife og tveggja annarra leikvanga eða heimavallar Dallas Cowboys í Arlington í Texas og SoFi leikvangsins í Inglewood á Los Angeles svæðinu.

Undanúrslitaleikirnir fara líka báðir fram í Bandaríkjunum. Annar er spilaður AT&T leikvanginum í Arlington í Texas (heimavöllur Dallas Cowboys) en hinn verður spilaður á Mercedes Benz leikvanginum í Atlanta (heimavöllur Atlanta Falcons).

Opnunarleikurinn fer aftur á móti fram á Azteca leikvanginum í Mexíkóborg en þetta verður þriðja heimsmeistarakeppnin þar sem er spilað á honum en úrslitaleikirnir á bæði HM 1970 og HM 1986 fóru þar fram.

Leikirnir í átta liða úrslitunum verða allir líka spilaðir í Bandaríkjunum eða á Gillette leikvanginum í Foxborough (New England Patriots), á SoFi leikvanginum í Inglewood (Los Angeles Rams og Los Angeles Chargers), á Arrowhead leikvanginum í Kansas City (Kansas City Chiefs) og á Hard Rock leikvanginum í Miami (Miami Dolphins). Hard Rock leikvangurinn mun einnig hýsa leikinn um þriðja sætið.

Heimsmeistaramótið 2026 verður það fyrsta með 48 þjóðum en FIFA fjölgaði þátttökuþjóðum um sextán frá því á HM í Katar 2022. Aðeins 24 þjóðir voru með þegar heimsmeistaramótið fór síðast fram í Bandaríkjunum árið 1994.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×