Um milljón manns dvelja nú í borginni, í suðurhluta Gasa, en hundruð þúsunda hafa flúið þangað annars staðar frá undan aðgerðum Ísraelsmanna.
Stjórnvöld í Ísrael greindu frá því í síðustu viku að herinn myndi hefja sókn að Rafah á næstunni en erfitt er að sjá hvert fólk á að flýja þaðan, þar sem það á ekki möguleika á því að fara yfir landamærin að Ísrael eða Egyptalandi.
Samkvæmt OCHA létust ellefu í árás á íbúðahús nærri An Najjar-sjúkrahúsinu í austurhluta Rafah snemma á laugardag. Þá létust níu til viðbótar í tveimur aðskildum árásum, þar af eitt barn.

AFP hefur eftir heilbrigðisyfirvöldum á Gasa, sem eru undir stjórn Hamas, að alls hafi 128 látist í árásum á Rafah um helgina.
Samkvæmt Guardian er fólk enn að flýja til Rafah frá Khan Younis, þrátt fyrir viðvaranir Ísraelsmanna, enda orðið fátt um staði á Gasa þar sem íbúar geta leitað skjóls.
Al Jazeera greinir frá því að Ísraelar hafi staðið í aðgerðum víða á Vesturbakkanum, þar sem að minnsta kosti ellefu hafi verið handteknir. Komið hafi til átaka milli hermanna og vopnaðra Palestínumanna í borginni Tulkarem og í al-Ain flóttamannabúðunum í Nablus.
Samkvæmt OCHA hafa 372 Palestínumenn látist í aðgerðum Ísraelsmanna á Vesturbakkanum frá 7. október síðastliðnum, þegar Hamas-liðar réðust á byggðir Ísraelsmanna.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanlegur til Sádi Arabíu en hann mun einnig heimsækja Ísrael, Egyptaland og Katar til að freista þess að þrýsta á um vopnahlé.