Enski boltinn

Mourinho vill taka við United á nýjan leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jose Mourinho er sagður vilja taka við Manchester United á nýjan leik.
Jose Mourinho er sagður vilja taka við Manchester United á nýjan leik. Vísir/Getty

Jose Mourinho er ennþá atvinnulaus eftir að hafa verið rekinn frá ítalska liðinu Roma. Skrif Daily Mail um næsta skref Portúgalans gætu fengið stuðningsmenn Manchester United til að taka andköf.

Samkvæmt Daily Mail er Mourinho afar áhugasamur um að snúa aftur á Old Trafford og taka við stjórn Manchester United á nýjan leik. Samkvæmt fréttinni vill Mourinho meina að hann eigi ókláruð verk á Old Trafford sem hann vill klára.

Mourinho stýrði United á árunum 2016 til 2018 og vann bæði deildabikarinn og Evrópudeildina á tíma sínum hjá United. Hann var rekinn í desember árið 2018 eftir slæma byrjun liðsins þá um haustið. Hann hafði þar að auki átt í deilum við eigendur félagsins og var kominn upp á kant við stuðningsmenn þess.

Þrátt fyrir þetta vill Daily Mail meina að Mourinho vilji gerast knattspyrnustjóri United á nýjan leik og að Portúgalinn margreyndi hafi gert það að sérstöku verkefni sínu að taka við félaginu aftur einhvern tímann í framtíðinni. Mourinho er sagður heillast af nýjum stjórnendum félagsins með Jim Ratcliffe í fararbroddi.

Hvort „Hinn einstaki“ sé inni í myndinni hjá forráðamönnum United er hins vegar óvíst. Síðan hann var rekinn frá Roma hefur hann hafnað tilboði frá Sádi Arabíu og vill halda áfram að vinna í bestu deildum Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×