Fótbolti

„Björt fram­tíð hjá Barcelona með eða án mín“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernandez sést hér áhyggjufullur á hliðarlínunni í tapi Barcelona í gær.
Xavi Hernandez sést hér áhyggjufullur á hliðarlínunni í tapi Barcelona í gær. Getty/Ion Alcoba Beitia

Pressan jókst enn frekar á Xavi Hernández, þjálfara Barcelona, eftir að liðið datt út úr spænsku bikarkeppninni í gær.

Barcelona tapaði þá 4-2 fyrir Athletic Club Bilbao en aðeins tíu dögum fyrr steinlá liðið 4-1 á móti Real Madrid í úrslitaleik Ofurbikarsins. Einu vonir Barcelona um titil á tímabilinu liggja því í spænsku deildinni og Meistaradeildinni.

„Allir þjálfarar hjá stóru klúbbunum verða að vinna titla en ég stoltur yfir því hvernig við héldum áfram allt til enda á móti frábæru liði og þá sérstaklega ungu strákarnir,“ sagði Xavi Hernández eftir leikinn.

„Við erum að nota krakka og hópurinn er lítill. Það er það sem ég er að meina þegar ég tala um að við séum í uppbyggingu. Ég held að þetta sé byrjunin á einhverju stóru. Það er björt framtíð hjá Barcelona með eða án mín,“ sagði Xavi. ESPN segir frá.

„Það er virkilegt gott verkefni í gangi og ekki hvað varðar mig sem þjálfara heldur er að koma upp góð kynslóð. Strákar eins og Cubarsí, Fort, Lamine, Guiu og fleiri ... Fermín López. Þetta er upphafið að einhverju stóru en við verðum að leggja mikið á okkur og vinna. Þetta snýst alltaf um að vinna hjá Barca,“ sagði Xavi.

Barcelona lenti undir eftir aðeins 36 sekúndna leik en komst yfir með mörkum Robert Lewandowski og Yamal. Athletic jafnaði metin og leikurinn fór í framlengingu. Yamal, hafði skorað frábært mark í fyrri hálfleiknum en fór illa með tvö upplögð færi sem hefðu tryggt sigurinn.

„Ég er vonsvikinn með að hann hafi ekki nýtt færin sín í stöðunni 2-2 en ég ætla ekki að skrifa það á strákinn. Hann er bara sextán ára og er að spila stórkostlega. Hann býr til þessi færi sjálfur,“ sagði Xavi.

Bræðurnir Inaki og Nico Williams tryggðu Athletic sigurinn með mörkum í framlengingunni.

„Ef við erum ekki að keppa um hluti í lok tímabilsins þá verð ég að fara. Það á ekki bara við um mig heldur um alla þjálfara. Þetta er stór klúbbur. Þetta er Barca. Ég veit hvar ég er og hverjar kröfurnar eru. Við verðum að vinna titla og að minnsta kosti keppa af alvöru um þá,“ sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×