Fótbolti

Ancelotti hæst­á­nægður með frumraun Arda Güler

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ancelotti brosti breitt þegar talið barst að Arda Guler, 18 ára gömlum leikmanni Real Madrid sem þreytti frumraun sína fyrir liðið í gærkvöldi.
Ancelotti brosti breitt þegar talið barst að Arda Guler, 18 ára gömlum leikmanni Real Madrid sem þreytti frumraun sína fyrir liðið í gærkvöldi. Charlotte Wilson/Offside/Offside via Getty Images

Carlo Ancelotti hrósaði hinum 18 ára gamla Arda Güler í hástert eftir að sá síðarnefndi þreytti frumraun sína fyrir Real Madrid í 3-1 bikarsigri gegn Arandina. 

Güler gekk til liðs við Real Madrid í sumar eftir að hafa vakið athygli með Fenerbahce og verið orðaður við stærstu félög fótboltans. Barcelona virtist líklegasti áfangastaður kappans en á endanum var hann seldur til Real Madrid fyrir um 20 milljónir evra. 

Dvöl hans hjá félaginu hefur einkennst af hverjum meiðslunum á fætur öðrum. Fyrst fór hnéð og Güler gekkst undir aðgerð, eftir það tognaði hann tvisvar og hefur samtals verið frá keppni í rúmlega hálft ár. Hann var ónotaður varamaður í síðustu þremur leikjum Madrídarliðsins en byrjaði svo sinn fyrsta leik í gær og spilaði 59 mínútur. 

Carlo Ancelotti var virkilega ánægður með frumraunina. Hann sagði leikmanninn búa yfir „sterkum karakter. Gæðin leyna sér ekki, en persónuleikinn og viðhorfið er það mikilvægasta til að ná árangri.“

Real Madrid vann leikinn eins og áður segir og er því komið áfram í 16-liða úrslit Copa del Rey. Þeir fljúga nú næst til Sádí-Arabíu og mæta nágrönnum sínum Atletico Madrid í undanúrslitum spænska ofurbikarsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×