Chelsea marði sigur á ný­liðunum í marka­leik

Cole Palmer sést hér skora sitt annað mark og þriðja mark Chelsea í leiknum í dag.
Cole Palmer sést hér skora sitt annað mark og þriðja mark Chelsea í leiknum í dag. Vísir/Getty

Chelsea vann 3-2 sigur á Luton í frábærum leik í ensku úrvalsdeildinni. Luton var nálægt því að jafna metin eftir að hafa lent þremur mörkum undir.

Chelsea náði forystunni strax á 12. mínútu. Issa Kabore mistóks þá að hreinsa frá marki og sendi þess í stað boltann beint á Cole Palmer. Palmer tók boltann með sér inn í tieginn og skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Ross Barkley komst nálægt því að jafna skömmu síðar þegar skot hans úr aukaspyrnu fór rétt yfir mark Chelsea. Luton komst betur og betur inn í leikinn og það var eiginlega gegn gangi leiksins þegar Noni Madueke kom Chelsea í 2-0 með góðu skoti á nærstöngina. Annað leikurinn í röð sem Madueke skorar í og hann heldur betur að minna á sig.

Staðan í hálfleik var 2-0 og þó svo að Chelsea væri ekki að spila neitt frábærlega þá var það Cole Palmer sem endanlega gekk frá leiknum með góðu marki á 70. mínútu. Hann fékk þá boltann frá Nicolas Jackson, átti frábæra fyrstu snertingu framhjá Thomas Kaminski í markinu og skoraði í tómt markið.

Luton komst nálægt því að minnka muninn á 79. mínútu þegar Elijah Adebayo átti skot í þverslána en mínútu síðar náði Luton að skora. Barkley skoraði þá gegn sínu gamla félagi með skalla eftir hornspyrnu.

Luton hélt áfram að ógna og gerði Chelsea erfitt fyrir með góðum fyrirgjöfum. Alfie Doughty átti eina slíka sem Carlton Morris skallaði að marki en Djordje Petrovic í marki Chelsea gerði frábærlega í að slá boltann í þverslána.

Aðeins mínútu síðar varði Petrovic síðan aftur eftir góðan skalla Doughty. Nú fékk boltinn hins vegar fyrir Adebayo sem skoraði auðveldlega og minnkaði muninn í 3-2.

Chelsea var komið í kaðlana og gerði lítið annað það sem eftir var nema verjast. Þrátt fyrir mikla pressu heimamanna náðu gestirnir að standa vörnina og fögnuðu að lokum 3-2 sigri.

Chelsea endar því ömurlegt ár á góðum nótum en liðið fer upp í 10. sæti með sigrinum. Luton er áfram í fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira