Fótbolti

Braut viðbein og verður lengi frá

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kostas Tsimikas meiddist eftir samstuð við Bukayo Saka.
Kostas Tsimikas meiddist eftir samstuð við Bukayo Saka. Vísir/Getty

Kostas Tsimikas, varnarmaður Liverpool, verður lengi frá keppni eftir að hafa viðbeinsbrotnað í viðureign liðsins gegn Arsenal á Þorláksmessu.

Gríski bakvörðurinn lenti illa eftir samstuð við Bukayo Saka, kantmann Arsenal, sem varð til þess að Tsimikas viðbeinsbrotnaði. Áreksturinn við Saka varð einnig til þess að Tsimikas sópaði löppunum undan Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, sem féll til jarðar.

Tsimikas verður því lengi frá keppni vegna meiðslanna. Klopp þarf því að grafa djúpt til að leysa bakvarðarstöðuna, en byrjunarliðsmaðurinn Andy Robertson er einnig frá keppni vegna meiðsla sem hann hlaut í leik með skoska landsliðinu í október.

„Þessi leikur litaðist af því að Kostas Tsimikas meiddist illa,“ sagði Klopp í viðtali eftir leik Liverpool og Arsenal, sem endaði með 1-1 jafntefli.

„Hann fann til í viðbeininu sem er klárlega brotið þannig hann verður lengi frá. Það er erfitt að taka þessu á sama tíma og Robbo [Andy Robertson] er meiddur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×