Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Hvurslags spurning er þetta? Ég tel svefn vera gríðarlega vanmetin, sérstaklega þegar þú ert í starfi sem reynir fyrst og fremst á gráa vöðvann.
Ef þú eða starfsmenn þínir eru mjög þreyttir og illa sofnir getur þú eða þeir allt eins verið heima. Þetta er annars stigs diffurjafna sem snýst um að hámarka afköst með tímasetningu sem vítt hliðarskilyrði.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Börnin er orðin stór og fullorðin. Það þarf ekki mikið að vekja þau, það þarf frekar að vekja mig. Það er morgunmatur, renna yfir viðskiptafréttir og koma sér í vinnuna. Á sumrin og vorin reyni ég að hjóla eins oft og ég get. Finnst það besta byrjunin á deginum, frískur.
Hugleiðsla á morgnana…? …Hver gerir það eiginlega?
Ef ég tæki hugleiðslu á morgnana myndi ég nú bara sofna aftur. Ég er einfaldur maður, það er kaffi fyrir mig takk.
Ég tek hugleiðsluna áður en ég fer að sofa á nálastungumottu. Fer í kraftlyftingar tvisvar í viku í hádeginu og kem frískur til baka en farið að síga í upp úr sex en þá er líka kominn tími á að fara heim.“
Sönglar þú stundum með jólalögum í útvarpinu?
„Biddu fyrir þér ef svo væri! Fólk heldur fyrir eyrun þegar ég syng. Ég er af miklu tónlistarfólki. Það biður mig vinsamlegast um að þegja ef það er samsöngur. Liggur mjög hátt rómur og gjörsamlega laglaus.
Það er hins vegar rétt hjá þér að ég naut töluverðra vinsælda á karókíbörum í denn.
Vinur minn sem er lærður söngvari sá um sönginn og faldi sig baka til. Ég sá um show-ið að venju. Sívinsælt atriði hjá okkur félögunum. Það er ekki að ástæðulausu að ég er í verðbréfabransanum.
Ég er lítið hrifinn af jólalögum en syng hástöfum í bílnum þegar ég er einn með góðum lögum frá tíunda áratugnum eins og til dæmis Bonnie Tyler, Holding out for a Hero og Brother Louie með Modern Talking og já kannski stöku sinnum Baggalútur svo eitthvað sé nefnt.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„The show must go on“ Það er gríðarleg keyrsla alla tíma sólarhringsins, allt árið um kring og vinnuhraðinn mikill.
Auk rekstrar greiningardeildar þar sem við gefum út um 80 til 90 skýrslur á ári, auk annarrar útgáfu. Þá hefur verið mikil keyrsla í ráðgjafaverkefnum. Vinna allar helgar í haust. Ég er dálítið þannig að ég hamast non-stop frá 9 til 18 og oft bara 10 mín í hádegismat. Líður best í vinnu með krefjandi verkefnum þar sem keyrslan er töluverð.
Nú í desember stofnaði ég svo litla heildsölu með kærustunni minni. Hef alltaf haft mikinn áhuga á verðlagningu en það er víst það sem ég er með framhaldsmenntun í.
Það er mjög erfitt að slappa af þegar maður er í svona rekstri. Það eru annaðhvort óbyggðir eða útlönd. Það verður Tyrkland með konunni um jólin og ströndin við Öledeniz og Bláa lónið í Tyrklandi. Við erum með íbúð við Miðjarðhafið. Kúppla mig út þegar ég fer í annað umhverfi.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég skipulegg mig á morgnana yfir fyrsta kaffibollanum. Ég hugsa samt um verkefni morgundagsins á kvöldin og laumast oft í vasareikninn í símanum eða excel þegar enginn sér til á kvöldin. Bestu hugmyndirnar koma oftast þegar ég er á leiðinni heim úr vinnunni eða þegar ég er ekki í vinnunni. Dagskráin liggur því fyrir í grófum dráttum á morgnana þegar ég er búinn að sofa á hlutunum.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Nei hættu nú alveg…! Ég er orðinn 47 ára og löngu hættur að trúa á jólasveininn. Það er oftast seint og eftir miðnætti.
Ég fæ líklega kartöflu í skóinn á morgun, er það ekki?“