Hareide, sem tók við þjálfun íslenska landsliðsins fyrr á árinu er ekki búinn að gefa baráttuna í undankeppninni upp á bátinn þó svo að Ísland þurfi að vinna bæði Slóvakíu sem og Portúgal og tryggja á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.
„Þessu er ekki lokið. Það getur allt gerst í fótboltanum og við þurfum, svo lengi sem það er möguleiki til staðar, að sækja til sigurs. Það er staðan í leik okkar við Slóvakíu. Svo þurfum við að bíða til leiksloka í lokaumferðinni og sjá hvað setur.
Það er einn hluti af þessari vegferð hjá okkur. Svo þurfum við að sjá til þess að byggja upp sterkt lið til að geta tekið á mögulegum anstæðingum okkar í umspili í mars. Það skiptir okkur miklu máli að ná í góð úrslit.
Með því byggjum við upp sjálfstraustið í liðinu. Við höfum verið óheppnir og ekki nægilega góðir í nokkrum leikjum en aðallega óheppnir. Sér í lagi í fyrri leiknum við Slóvakana. Þar fóru mörg góð færi í súginn hjá okkur og þeir taka sigurinn með sjálfsmarki.“
Slóvakía sé næstbesta liðið í riðlinum samkvæmt töflunni.
„Og við tókum leikinn til þeirra í fyrri leiknum. Það eru því miklir möguleikar í stöðunni fyrir okkur í leiknum gegn þeim hér. Mikilvægt fyrir okkur að vera samkeppnishæfir í leikjunum á móti liðum eins og Slóvakíu. Ég tel að það verði raunin núna.“
En býr enn trú meðal íslenska landsliðsins á því að liðið geti tryggt sér sæti í gegnum þessa undankeppni?
„Það getur margt gerst í fótboltanum. Það er það fallega í þessu. Oft á tíðum eiga sér stað úrslit sem þú áttir ekki von á. Það sem við getum gert er að koma okkur í góða stöðu fyrir leikinn gegn Portúgal. Það gerum við með því að vinna Slóvakíu.“