Tónlistarfólkið Laufey Lín Jónsdóttir og Ólafur Arnalds eru bæði tilnefnd til Grammy-tónlistarverðlauna. Tilkynnt var um tilnefningar síðdegis í dag.
Laufey er tilnefnd fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundna popptónlistar, sungin tónlist [e.Traditional Pop Vocal Album] og Ólafur fyrir Some Kind of Peace (Piano Reworks) í flokknum nýaldarstemmningstónlist [e. Best New Age, Ambient, or Chant Album].
Laufey brást við tilnefningunni á Instagram þar sem hún sagðist varla trúa sínum eigin augum.
Ólafur fagnaði einnig tilnefningunni á Instagram og þakkaði þeim sem komu að gerð plötunnar.
Lilja D. Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarráðherra, birti færslu um tilnefningar þeirra tveggja í dag og óskaði þeim til hamingju. Hún sagði tilnefningarnar enga tilviljun heldur afurð þrotlausrar vinnu.
Flestar tilnefningar í ár hlaut tónlistarkonan SZA. Aðrir sem fengu margar tilnefningar eru Victoria Monét, Serban Ghenea, Phoebe Bridgers, Taylor Swift, Olivia Rodrigo, Billie Eilish, Jack Antonoff, Jon Batiste, Miley Cyrus, og Brandy Clark. Hægt er að kynna sér allar tilnefningar hér.