Hér erum við að tala um húsið í Kjarrhólum 8 þar sem Sverrir Örn Hlöðversson, tannlæknir og fjölskylda búa. Tannlæknirinn er búin að eyða öllum stundum eftir vinnu í bílskúrnum síðustu daga við að gera allt klárt fyrir morgundaginn en opið hús verður hjá fjölskyldunni frá 18:00 til 20:00 þar sem öll börn eru velkomin, hvort sem þau vilja koma ein eða með foreldrum í heimsókn og upplifa hrekkjavökuævintýrið í húsinu.
„Það þarf að nota þetta drasl, sem er til. Þá vantar bara nokkrar dúkkur og eitthvað þannig. Meirihlutinn af einhverjum ljósum og drasli er til og svo bara að búa sér til eitthvað tilefni til að vera með eitthvað vesen,” segir Sverrir Örn.
Sverrir fer alla leið með hrekkjavökuna hvort sem það er inn í bílskúr eða fyrir utan húsið. Hér er mikill metnaður á ferðinni.
„Krakkarnir fara í gegnum göng inn í helli. Þá verður fullt af skrýtnum málverkum. Sum breytast og sum eru lifandi og eitthvað svona skrýtið. Svo ganga þau í gegnum einhverja ranghala og göng. Þetta er köngulóaþema, svo eru það spörfuglarnir hrafnarnir, pöddur og draugar og einhver djöfulgangur,” segir Sverrir Örn spenntur fyrir morgundeginum.
„Þetta eru jólin,” bætir hann við.

En hvað segir konan á heimilinu yfir öllu þessu tilstandi hjá manni hennar?
„Þetta er bara mjög flott, þetta verður geggjað.”
Og hvernig er að eiga svona skrýtin karl?
„Það er bara mjög gaman en það er krefjandi á köflum,” segir Halla Marinósdóttir skellihlæjandi.