Leitin er nú hafin að stúlkum fyrir yngri hlutverk systranna, Önnu yngri og Elsu yngri. Stúlkur á aldrinum 8 til 11 ára (fæddar 2012 til 2015) geta tekið þátt í prufunum.
Prufan felur í sér að syngja eitt lag og fara með texta sem má nálgast á heimasíðu Þjóðleikhússins. Hægt er að skila inn leikprufunum rafrænt á vef leikhússins til og með 15. október.
Gísli Örn Garðarsson mun leikstýra Frost en sýningin verður sett upp á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Sýningin er samstarfsverkefni Vesturports og Det Norske Teatret í Osló, Þjóðleikhússins á Íslandi, Borgarleikhússins í Stokkhólmi og Borgarleikhússins í Helsinki. Tilkynnt verður um danskt leikhús innan tíðar.

Forsala á stórsöngleikinn hófst í síðustu viku og ljóst að spennan er mikil því nú þegar er orðið uppselt á tuttugu og tvær sýningar. Sagan um systurnar Önnu og Elsu sló rækilega í gegn þegar hún kom út sem kvikmynd árið 2013. Margar kynslóðir barna þekkja ævintýrið, sem byggir á sögunni um Snædrottninguna, út og inn.