Sætið var tryggt eftir 4-0 sigur á Åsane á útivelli því á sama tíma þá tapaði Kongsvinger stigum. Fredrikstad er með 57 stig á toppnum, sjö stigum meira en KFUM sem er í öðru sæti og fjórtán stigum meira en Kongsvinger sem er í þriðja sæti.
Júlíus kom til félagsins frá Víkingum fyrir þetta tímabil og norska liðið komst upp á fyrsta ári með hann innan borðs.
Júlíus var fyrirliði Víkinga í fyrrasumar og tók þá við bikarnum eftir sigur í Mjólkurbikarnum. Hann var ekki lengi að vinna sér inn leiðtogahlutverk hjá Fredrikstad liðinu.
Júlíus fékk fyrirliðabandið í byrjun ágúst og liðið tapaði ekki leik þegar hann leiddi liðið inn á völlinn.
Júlíus var fyrirliði í tíu leikjum og Fredrikstad vann níu þeirra. Tíundi leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.
Síðan Júlíus tók við bandinu missti hann af einum leik vegna leikbanns. Fredrikstad liðið tapaði þeim leik 2-1.
Næst á dagskrá hjá Júlíusi er að koma til Íslands og hjálpa íslenska landsliðinu í undankeppni EM 2024.