Lífið

Úti­lokar ekki að byrja aftur á OnlyFans: „Ég myndi aldrei taka þetta til baka“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Edda Lovísa Björgvinsdóttir er fyrsti gestur Einkalífsins í haust.
Edda Lovísa Björgvinsdóttir er fyrsti gestur Einkalífsins í haust. Vísir/Vilhelm

Edda Lovísa Björg­vins­dóttir segist ekki úti­loka að hún muni byrja aftur að selja klám á On­lyFans á ein­hverjum tíma­punkti. Hún segir þó að það þyrfti að vera á allt öðrum for­sendum. Henni finnst marka­leysi ekki inn­byggt í vef­síðuna og segist ekki myndu gera neitt öðru­vísi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Einka­lífinu þar sem Edda Lovísa er gestur. Edda ræðir þar æskuna, hvernig það var að alast upp í einni þekktustu leik­listar­fjöl­skyldu Ís­lands, árin á On­lyFans og reynsluna af miðlinum sem varð til þess að hún hætti.

Eins og fram hefur komið sagði Edda skilið við miðilinn eftir að hún var farin að hætta að virða eigin mörk auk þess sem henni voru farnar að berast hótanir, meðal annars frá á­skrifanda sem vissi hvar hún átti heima.

Myndirðu í­huga að byrja aftur á On­lyFans?

„Ef ég myndi byrja aftur, þá myndi það þurfa að vera á allt öðrum for­sendum. Ég ætla aldrei að loka á það. Ég elskaði On­lyFans, ég dýrkaði það, mér fannst það ó­geðs­lega skemmti­legt á tíma­punkti. Og þetta gaf mér alls konar tæki­færi, eins og til dæmis að leika í bíó­mynd, sem ég hefði ekki fengið ef ég hefði ekki gert þetta.“

Edda segist vera reynslunni ríkari. Nú viti hún fullt sem hún hafi ekki vitað þegar hún var ný­byrjuð.

„Ef ég myndi byrja aftur þá yrðu það skýrari mörk, það væri ef mig myndi virki­lega langa það aftur, það er ekki eitt­hvað sem ég myndi hoppa í út af því bara.“

Síða hvers og eins

Edda segist ekki telja að það sé inn­byggður hvati í On­lyFans sem geri það að verkum að þeir sem fram­leiði klám þar inni þurfi stöðugt að gera meira til þess að halda uppi að­sókn inn á sína síðu.

Þú gætir byrjað aftur og virt þín mörk?

„Já. Ég gæti það. Af því að það sem ég var búin að byggja, fólkið sem voru mínir á­skrif­endur, þau dýrka mig. Það er til fullt af fríu klámi, fullt af gellum á On­lyFans, en þau eru mínir á­skrif­endur af því að þau vilja sjá mig. Þau geta ekki breytt því hvað ég geri, eða sagt mér til. Ef ein­hver spurði: „Gerirðu svona?“ þá sagði ég bara nei, ef það var eitt­hvað sem ég var alls ekki til í.“

Þannig segist Edda geta birt myndir á On­lyFans, ef það væri eitt­hvað sem myndi henta henni að gera ein­göngu, án mynd­banda.

„Þeir sem vilja sjá það geta borgað mér fyrir það. Þetta er síða þar sem þú getur þannig séð birt það sem þú vilt. Þú þarft ekkert að fara „svona langt“ eða „svona langt.“ Þetta er þín síða og þú ræður því alveg. Það sem er hættu­legt er að maður byrjar að fara lengra og lengra af því að maður byrjar að sjá peninginn og það er það sem er hættu­legt, maður þarf að passa sig á manns eigin mörkum.“

Viðtalið við Eddu Lovísu í Einkalífinu má einnig hlusta á á hlaðvarpsformi á öllum helstu streymisveitum.

Síðan enn­þá opin

Finnst þér þú hafa gert mis­tök?

„Ég myndi ekki segja mis­tök. Kannski í endann. Ég gerði mis­tök með því að stíga yfir mörkin mín. En ef ég myndi geta farið til baka þá myndi ég gera það sama og ég gerði. Ég myndi byrja á On­lyFans. Ég myndi gera það sem ég gerði. Ég myndi aldrei taka þetta til baka.“

Edda segist þekkja þó nokkrar stelpur sem selji klám á síðunni. Hún segist stundum verða svekkt út í sjálfa sig fyrir að hafa ekki getað haldið á­fram.

„Stundum hugsa ég: „Oh ég vildi að ég gæti haldið á­fram.“ Ég vildi að ég hefði það í mér að halda þessu á­fram, því ég man hvað mér fannst þetta skemmti­legt á þessum tíma og ég man hvað mér gekk vel þegar mér fannst þetta skemmti­legt. En nú fæ ég að fylgjast með þeim ganga vel, ég er búin með þetta og nú er komið að þeim.“

Þér líður miklu betur?

„Já. Þetta er bara á­kvörðun sem ég tók fyrir mig. Ég er sátt við hana. Allir sem í­huga þetta eða eru á þessu, þau þurfa bara að taka á­kvörðun fyrir sig.“

Þrír eða fjórir mánuðir eru síðan Edda hætti á On­lyFans. Hún segir að síðan sín á miðlinum sé enn opin.

„Ég kíki enn­þá inn á þetta. Ég er ekkert búin að loka síðunni minni. Hún er enn­þá opin. En ég er ekki að gera það sem mig langar ekki að gera lengur. Ef mig langar að pósta ein­hverri mynd þá pósta ég ein­hverri mynd.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.