Lífið

Edda Lovísa hætt á On­lyFans eftir hótanir og eigið marka­leysi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Edda Lovísa Björgvinsdóttir er nýjasti gestur í Einkalífinu á Vísi. Hún segir að þeir sem skrái sig á OnlyFans verði að vera reiðubúnir undir það að sambönd sín á milli þeirra og fjölskyldu þeirra og vini geti slitnað eða orðið skrítin.
Edda Lovísa Björgvinsdóttir er nýjasti gestur í Einkalífinu á Vísi. Hún segir að þeir sem skrái sig á OnlyFans verði að vera reiðubúnir undir það að sambönd sín á milli þeirra og fjölskyldu þeirra og vini geti slitnað eða orðið skrítin. Vilhelm

Edda Lovísa Björgvinsdóttir er hætt að framleiða klám á OnlyFans. Hún segist ekki geta farið lengur ein niðrí bæ og þá hefur hún þurft að flytja eftir að áskrifandi á síðunni komst að því hvar hún átti heima. Hún segist hafa verið hætt að virða eigin mörk.

Þetta kemur fram í Einkalífinu þar sem Edda Lovísa er gestur. Edda steig fyrst fram fyrir tveimur árum síðan í Ísland í dag þar sem hún ræddi reynslu sína af því að selja myndefni á OnlyFans.

Í nýjasta þætti Einkalífsins ræðir Edda Lovísa æskuna, hvernig það var að alast upp í einni þekktustu leiklistarfjölskyldu Íslands, árin á OnlyFans og reynsluna af miðlinum sem varð til þess að hún ákvað að hætta.

Þáttinn í heild sinni má horfa á hér fyrir neðan.

Klippa: Einkalífið - Edda Lovísa Björgvinsdóttir

Hörð á því að virða eigin mörk

„Þegar ég var nýbyrjuð þá var þetta allt svo spennandi. Það fylgdi þessu peningur og athygli og þetta var allt mjög heillandi. En því lengur sem maður er á þessu því dýpra sekkur maður einhvern veginn og maður fer að hætta að virða sín eigin mörk.“

Edda segist hafa tapað sér í því að gera hluti sem sér hafi fundist óþægilegir til þess að halda áfram að afla peninga á síðunni. Hún segist hafa verið hörð á því þegar hún byrjaði á síðunni fyrir þremur árum síðan að hún myndi virða sín mörk.

„Þetta er um mig og minn líkama. Ég stjórna honum, ég geri það sem ég vil, en ég var hætt að virða það. Þannig að ég ákvað að fyrst ég væri komin þangað að þá væri kominn tími á að hætta. Þetta var farið að hafa áhrif á geðheilsu mína og mig langaði ekki að gera þetta, en þurfti samt að borga leigu. Þá var þetta allt í einu orðið allt það sem fólk segir að þetta sé.“

Edda Lovísa segist styðja þær stelpur sem þegar séu á OnlyFans en vill að þær sem ekki eru þar en íhugi þar, geri sér grein fyrir því hvað því fylgi.

Hún segir framleiðsluna fyrir OnlyFans hafa verið orðin að vinnu sem hún hafi hatað. Það hafi reynt mikið á geðheilsuna að framleiða nýtt efni.

„Þetta tekur á á allt annan hátt en önnur vinna. Þetta tekur á spiritjúallí og á geðheilsuna og ef maður fer ekki varlega þarna þá getur þetta gleypt þig og þú getur gleymt því hvað þú stendur fyrir í þessu.“

Mælir ekki með OnlyFans en styður samfélagið

Edda segir að hún sé ekki alfarið sammála þeim sem gagnrýnt hafi OnlyFans. Hún styðji enn OnlyFans samfélagið á Íslandi en segist samt ekki geta mælt með því við neinn að skrá sig.

„Ég feta svolítið milliveginn í þessu. Ég myndi ekki mæla með þessu. Ef einhver stelpa segir mér að hún sé að pæla í að byrja á OnlyFans - ekki gera það, nema þú sért tilbúin í þetta, og þetta, A, B, C D, því þegar þú byrjar á Onlyfans þá er eiginlega engin leið til þess að taka það til baka.“

Hvað þarf fólk að vera tilbúið í ef það ætlar að byrja á OnlyFans?

„Eins og ég, ég mætti ekki fara ein niður í bæ. Ever. Maður fær skilaboð þar sem einhver segir þér hvað hann ætli að gera við þig ef hann sér þig niðrí bæ. Ég hef fengið þannig skilaboð.“

Hótanir?

„Já, bara hótanir. Karlmenn að segja: „Ef ég myndi sjá þig niðrí bæ, þá myndi ég taka þig.“ Þannig að ókei, ég get ekki farið niður í bæ. Ég get ekki farið ein út á kvöldin eitthvert, út af því að ég var þessi public klámstjarna.“

Edda segir að þeir sem skrái sig á OnlyFans verði að vera reiðubúnir undir það að sambönd sín á milli þeirra og fjölskyldu þeirra og vina geti slitnað eða orðið skrítin. Ekki sé víst að allir, amma og afi, sætti sig við að barnabarnið sé að framleiða klám.

„Það er svo mikið sem maður hugsar ekki um þegar maður byrjar sem maður verður að hugsa um. Ertu tilbúinn í það að þetta sé á netinu? Þetta verður alltaf þar, sama hverju þú eyðir. Þú setur þetta þangað og þetta er bara þarna.“

Edda segist hafa verið hrædd við að vera ein heima hjá sér á tímabili.

Sé viðkomandi í vinnu þurfi hann einnig að vera tilbúinn í það að fólkið sem hann vinni með viti af þessu. Sé jafnvel búið að skrá sig hjá honum og sjá hann.

„Þetta er svo viðkvæm staða til þess að vera í. Hugsaðu þig fimm sinnum, tíu sinnum áður en þú byrjar. Ekki vera hvatvís og byrja á OnlyFans. Skoðaðu þetta, lestu þér til um hvað þetta þýðir að búa til klám.“

Áskrifandi vissi hvar hún átti heima

Edda segist hafa fengið þó nokkur skilaboð með hótunum. Þar hafi verið á ferðinni nafnlausir aðilar, oft á samfélagsmiðlinum Instagram.

„Ég þurfti að flytja. Það var einn sem fann heimilisfangið mitt og sagði bara: „Ég veit hvar þú átt heima. Það fannst mér mjög ógnvekjandi,“ segir Edda.

Fluttirðu þá bara?

„Ég flutti. Ég þurfti bara að flytja. Það var einhver sem var að horfa á mig á OnlyFans sem vissi hvar ég átti heima. Á þessum tímapunkti bjó ég ein og mér fannst ég ekki örugg lengur. Svo ég flutti bara.“

Var það ekkert mál?

„Það var ógeðslega mikið mál. En til að passa upp á mig, þá var það ekkert mál. Það var auðvelt að droppa einhverri íbúð og fara eitthvert annað af því að einhver vissi hvar ég ætti heima. Ég var frekar til í að fara í gegnum það að flytja eitthvert frekar en að vera hrædd heima. Af því að ég var bara hrædd heima hjá mér. Ef einhver bankaði, þá var ég stressuð.“

Brot úr þættinum má sjá hér fyrir neðan, þáttinn í heild sinni má sjá ofar í greininni eða í sjónvarpi Vísis.

Pældi lengi í því að hætta

Edda segir að hún hafi verið að íhuga að hætta framleiðslu á efni fyrir OnlyFans í rúm hálft ár áður en hún hafi tekið ákvörðun um það fyrir tæpum þremur mánuðum síðan. Hún segist fyrst hafa verið hrædd um lífið eftir OnlyFans.

„Ég var hrædd. Að hætta einhverju svona er erfitt, af því að þetta er svo „auðvelt.“ Ég var búin að koma mér upp vinnu sem ég gat gert heima, hvar sem er. Það var erfitt að sætta sig við að þurfa mögulega að gera eitthvað annað og ég var hrædd. Hvað ef ég get það ekki?“

Edda segist hins vegar hafa upplifað gríðarlegan létti þegar hún hafi hætt á síðunni. Líkt og þungu fargi væri af sér létt.

„Ég þarf ekki að gera þetta lengur. Ekki það að ég hafi einhvern tímann þurft að gera þetta, en bara það að ég leyfði sjálfri mér að hætta einhverju sem ég vildi ekki gera lengur. Það var rosalegur léttir og allt í einu gat ég bara andað. Það var ekki þessi pressa að gera eitthvað sem mig langaði ekki að gera lengur.“

Vill ekki vera notuð sem dæmi

Edda ítrekar að þetta sé ákvörðun sem hver og einn þurfi að taka fyrir sig. Hún sé sátt við sína ákvörðun, þó hún styðji þær stelpur heilshugar sem enn séu á síðunni.

„Þetta er bara ákvörðun sem ég tók fyrir mig. Ég er sátt við hana. Allir sem íhuga þetta eða eru á þessu, þau þurfa bara að taka ákvörðun fyrir sig.“

Edda Lovísa er fyrsti gestur í nýrri seríu af Einkalífinu. Þar fer hún um víðan völl og talar meðal annars um reynslu sína af Only Fans.Vísir

Edda segist hafa hugsað sig lengi um það hvort hún vildi segja frá sinni reynslu opinberlega. Hún vill þó ekki vera notuð sem dæmi um það hve slæmt OnlyFans sé.

„Ég hef hugsað þetta mjög lengi. Langar mig að segja eitthvað? Langar mig að segja frá þessari hlið? En það er enginn annar að gera það. Ég vil ekki vera I told you so manneskjan.“

Hún segir fullt af stelpum líða vel á OnlyFans. Sér þyki það flott og segist hún styðja þær í því. Þar séu hins vegar á ferðinni sérstakar týpur með sérstakan kraft.

„Ég mun alltaf styðja fólkið mitt. Þetta er ennþá mitt samfélag þetta fólk, ég var partur af þessu samfélagi lengi og ég vil að þau séu með réttindin og að þau sem eru hamingjusöm í þessu, að þau sé studd og að það sé haldið utan um þau. En fólk sem er ekki byrjað í þessum bransa, það verður að passa sig. Það er bara þannig. Ég myndi ekki mæla með þessu.“

Þáttinn má horfa á í sjónvarpi Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.