Mikil seinkun varð á tímatökunum eftir að Lance Stroll missti stjórn á bílnum sínum undir lok fyrsta hlutans og lenti úti í vegg. Aston Martin bifreið Stroll skemmdist mikið og endaði úti á miðri braut og því varð um klukkustundar löng töf á meðan öllu var komið í rétt horf.
Tímatakan gat þó að lokum haldið áfram og var það að lokum Ferrari-maðurinn Carlos Sainz sem tók ráspól. Liðsfélagi hans hjá Ferrari, Charles Leclerc, ræsir þriðji, en á milli þeirra verður George Russell á Mercedes.
CARLOS SAINZ TAKES BACK-TO-BACK POLES!@Carlossainz55 lights up the streets of Marina Bay to take his second pole in a row for @ScuderiaFerrari!#SingaporeGP #F1 pic.twitter.com/FxNCb2uTSc
— Formula 1 (@F1) September 16, 2023
Það var hins vegar ekki góður dagur fyrir heimsmeistarann Max Verstappen og liðsfélaga hans hjá Red Bull, Sergio Perez.
Með hagstæðum úrslitum um helgina getur Red Bull-liðið tryggt sér heimsmeistaratitil bílasmiða, en eftir tímatökurnar verður það að teljast ólíklegt. Hvorki Verstappen né Perez komust í gegnum annan hluta tímatökunnar og Verstappen ræsir ellefti, tveimur sætum fyrir framan Perez sem ræsir þrettándi.