Bærinn er Haukholt í Hrunamannahreppi en þar er Steinunn Lilja Svövudóttir sauðfjárbóndi með sínum manni og fjórum börnum. Steinunn tók upp á því fyrir nokkrum árum að ganga sem allra mest berfætt yfir sumarið, sem hún segir núvitund í öllu sínu veldi.
„Á meðan ég gekk í skóm var ég alltaf að snúa mig og fékk mikið af beinhimnubólgu í sköflungana, þannig að já, ég met það þannig að áhættan af þessu sé ekkert meiri fyrir mig en að ganga í skóm,“ segir Steinunn.
En hvað er það sem er svona gott við að vera berfætt?
„Endorfín er frábært en það er eitthvað aðeins extra þegar maður labbar í grýttu, já það hefur áhrif á margt.“
Þannig að þú færð svona kikk út úr þessu?
„Já og svo líka eftir því sem ég labba meira berfætt er viðbragði betra. Fyrst þegar ég var að byrja á þessu meiddi ég mig svolítið. Maður var að stíga of hart á stórgrýti og eitthvað svoleiðis. Það gerist aldrei lengur en það er bara af því að viðbragðið upp í fótinn er orðið svo ósjálfrátt og mér finnst það hafa miklu víðtækari áhrif,“ segir Steinunn.
Steinunn segir að hún verði oft skítug á fótunum en þá skolar hún skítinn bara af í næsta drullupolli. Hún hvetur fólk til að prófa að ganga sem mest berfætt úti og tengja sig þannig við jörðina hvort sem það er heim við hús eða úti í náttúrunni.
