Í gær bárust fréttir af því að Rubiales myndi segja af sér sem forseti spænska knattspyrnusambandsins á fundi í dag.
Það fór ekki svo. Rubiales kom í pontu á fundinum og hrópaði fjórum sinnum að hann myndi ekki segja af sér. Forsetinn sagði svo gagnrýnendum sínum til syndanna og gerði lítið úr kossinum fræga.
„Þetta var bara smá koss. Það var engin þrá eða drottnun þarna, þetta var eins og ég væri að kyssa dóttur mína. Þetta gerðist í hita augnabliksins og báðir aðilar voru samþykkir. Ég á í frábæru sambandi við alla leikmennina og við eigum innileg augnablik,“ sagði Rubiales og lýsti því næst atvikinu þegar hann rak Hermoso rembingskossinn alræmda.
„Jenni reisti mig við. Við féllumst í faðma og ég sagði henni að gleyma vítaspyrnunni sem hún klikkaði á og sagði að hún hefði átt frábært mót. Ég spurði hvort ég mætti aðeins kyssa hana og hún sagði já. Þetta er samfélagslegt morð. Þeir eru að reyna að drepa mig. Við Spánverjar verðum að skoða hvert við erum að fara. Falsfemínismi leitar hvorki að réttlæti eða sannleikanum. Honum er sama um fólk.“
Rubiales hefur gegnt embætti forseta spænska knattspyrnusambandsins síðan 2018.