Enski boltinn

„Gætum þurft að spila með skeiðklukku“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Takehiro Tomiyasu gengur af velli eftir að hafa verið rekinn út af í leik Crystal Palace og Arsenal í gær.
Takehiro Tomiyasu gengur af velli eftir að hafa verið rekinn út af í leik Crystal Palace og Arsenal í gær. getty/Julian Finney

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var ekki sáttur við rauða spjaldið sem Takehiro Tomiyasu fékk í leiknum gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Arsenal vann 0-1 sigur á Selhurst Park þrátt fyrir að hafa verið manni færri síðustu 23 mínútur leiksins eftir að Tomiyasu fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Tomiyasu fékk fyrra spjaldið fyrir að vera of lengi að taka innkast og það seinna fyrir brot á Jordan Ayew.

Fyrir tímabilið var ákveðið að dómarar í ensku úrvalsdeildinni ættu að taka harðar á töfum og hingað til hafa verið gefin fjórtán gul spjöld fyrir tafir. Tomiyasu hélt þó aðeins á boltanum í átta sekúndur áður en hann fékk gula spjaldið. Þar áður hafði Kai Havertz haldið á boltanum í fimmtán sekúndur.

„Þetta eru nýju viðmiðin. Ég veit ekki hversu langan tíma þetta tók,“ sagði Arteta er honum var tjáð að Arsenal-menn hefðu verið samtals 23 sekúndur að taka innkastið.

„Ég held að þetta hafi verið átta sekúndur. Við gætum þurft að spila með skeiðklukku. En þetta er allt í lagi. Við unnum leikinn og ég er ánægður. Nýju reglurnar eru eitt en hvernig þessum upplýsingum er miðlað er annað. Við munum laga okkur að þessu.“

Arsenal er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni líkt og Brighton og Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×