Lauren James fékk rautt spjald í sextán liða úrslitunum og var dæmd í tveggja leikja bann. Hún hafði áður skorað þrjú mörk og gefið þrjár stoðsendingar í riðlakeppninni.
Landsliðsþjálfarinn Sarina Wiegman fann hins vegar lausn á því að vera án James og Manchester United leikmaðurinn Ella Toone kom sterk inn í staðin.
Enska liðið sló bæði út Kólumbíu og Ástralíu á leið sinni í úrslitaleikinn. Toone skoraði fyrsta markið í sigrinum á Ástralíu.
Nú er stóra spurningin hvað Wiegman gerir fyrir úrslitaleikinn. Heldur hún sama liði og hefur unnið leikina í átta liða og undanúrslitum eða tekur hún James inn í liðið á ný.
Það væri sárt fyrir Toone að missa sæti sitt eftir hetjudáðir hennar í síðasta leik en einnig hefur það verið grátlegt fyrir James að þurfa að vera upp í stúku í síðustu tveimur leikjum.
James er stórstjarna og af mörgum talin vera ein af bestu knattspyrnukonum heims. Liðið þarf á öllu sínum bestu leikmönnum að halda í úrslitaleiknum á móti gríðarlega sterku liði Spánverja.
Wiegman hefur tekið réttu ákvarðanirnar hingað til en að velja á milli Ellu Toone og Lauren James hlýtur að vera með þeim erfiðari hingað til.
James þarf að bæta fyrir mistök sín á móti Nígeríu og kemur líka úthvíld inn í leikinn. Það er margt sem mælir með því að setja nbesta leikmann liðsins ferska inn í byrjunarliðið nú þegar liðin eru búin að spila sex leiki á innan við mánuði.