Dagný, sem fagnar 32 ára afmæli á morgun, fæddi son sinn Brynjar sumarið 2018, þegar hún var leikmaður Portland Thorns í Bandaríkjunum, og nú er ljóst að á næsta ári eignast þau Ómar Páll Sigurbjartsson sitt annað barn.
Dagný mun því ekki spila með liði West Ham í vetur en á síðustu leiktíð var hún valin besti leikmaður liðsins.
„Þetta var örugglega mitt besta tímabil með West Ham og ég er að mörgu leiti mjög ánægð með það en þó að það hafi gengið vel var ég líkamlega að glíma við mikið hnjask. Ég fékk beinmar í hælinn og ýmislegt hnjask hér og þar, eitthvað sem ég hef ekki þurft að glíma við í langan tíma,“ sagði Dagný í viðtali við Vísi fyrr í sumar.
Dagný er ein af leikjahæstu landsliðskonum Íslands frá upphafi með 113 A-landsleiki og hún er jafnframt sú næstmarkahæsta frá upphafi, á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur, með 38 mörk.
Dagný greinir stuðningsmönnum West Ham frá nýja meðlimnum í „West Ham“-fjölskyldunni í myndbandi á samfélagsmiðlum enska félagsins í dag.
Þar talar hún einnig um stoltið sem hefur fylgt því að verða fyrirliði liðsins, eftir að hafa verið ein af þremur stuðningsmönnum West Ham í 800 manna þorpi á Íslandi, Hellu. Hún kom til félagsins 2021 þegar Brynjar var tveggja ára og kveðst afar þakklát fyrir það hvernig honum hefur verið tekið hjá félaginu, þar sem hann fær að mæta á æfingasvæðið og njóta sín enda sé hann orðinn gallharður stuðningsmaður Hamranna. Því sé sérstaklega ánægjulegt að geta tilkynnt um nýja fjölskyldumeðliminn.
A new Hammer is on the way!
— West Ham United Women (@westhamwomen) August 9, 2023
Congratulations to @dagnybrynjars and her partner Ómar on their fantastic news! pic.twitter.com/MhMwUcQ1CT