James var á bekknum í fyrsta leik Englands á HM en byrjaði seinni tvo leikina í riðlakeppninni. Hún skoraði sigurmarkið gegn Danmörku og kom svo með beinum hætti að fimm af sex mörkum Englands í 6-1 sigri á Kína.
Reece James, leikmaður Chelsea og bróðir James, hefur verið duglegur að mæra systur sína og pabbi þeirra er líka stoltur af dótturinni.
„Lauren hefur gert svona mörk síðan hún var yngri. Þú horfir á hana og hugsar með þér, með frjálsræði, Ronaldinho, [Lionel] Messi og [Diego] Maradona höfðu það. Hún hefur þessa hæfileika,“ sagði Nigel James um dóttur sína. Hann er viss um að James verði stjarna í kvennaboltanum um ókomna tíð.
„Klárlega. Við sjáum ekki marga svona Maradona og Ronaldinho lengur. Þegar þú sérð svona leikmann í kvennaboltanum verðurðu að horfa á og hugsa með þér: vá. Ef hún verður í góðu standi, heldur áfram að þróast sem leikmaður og fær góðan stuðning, af hverju ekki?“
James og stöllur hennar í enska landsliðinu mæta Nígeríu í sextán liða úrslitum á mánudaginn.