Þrátt fyrir ungan aldur hefur hin nítján ára gamla Amanda Andradóttir spilað með Nordjælland í Danmörku, Vålerenga í Noregi og Kristianstad í Svíþjóð. Hún gekk til liðs við Íslandsmeistara Vals í vikunni.
„Ég hélt að þetta væri það besta fyrir mig akkúrat núna. Það eru mjög spennandi leikir framundan hjá Val og síðan var ég náttúrulega hjá Val í yngri flokkunum,“ sagði Amanda í viðtali við Stefán Árna Pálsson í gær. Hún segist vera Valsari en faðir hennar Andri Sigþórsson lék með KR í efstu deild á sínum tíma og varð Íslandsmeistari með liðinu.
„Ég var það í yngri flokkunum og leið mjög vel þar. Ef ég ætlaði að koma heim þá ætlaði ég alltaf í Val.“
Hún segir að tíminn hjá Kristianstad hafi verið fínan en þar lék hún undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, fyrrum þjálfara Vals hér heima.
„Það var bara fínt, mjög fínn tími og allar í liðinu mjög fínar. Það vantaði svolítið upp á spilatímann en annars var þetta mjög fínn tími.“
Hún segist vonast til að komast aftur út í atvinnumennsku.
„Ég vil standa mig vel núna hér á Íslandi og síðan vonast ég til að komast aftur út.“
Amanda er í landsliðshópi Íslands sem mætir Finnlandi á Laugardalsvelli í kvöld. Hún hefur leikið þrettán A-landsleiki og skorað tvö mörk.
„Þetta eru mjög fínir landsleikir og ég er mjög spennt fyrir leiknum á morgun,“ sagði Amanda á lokum en auk leiksins við Finnland leikur kvennalandsliðið við Austurríki ytra á þriðjudag.