Danskompaní frá Keflavík kom, sá og sigraði og lenti á laugardagskvöld heima undir heiðursbunu flugvallarþjónustu Isavia á Keflavíkurflugvelli, - með sex gullverðlaun, tvö silfur og eitt brons í farteskinu.
„Þrotlausar æfingar, frábærlega útfærð atriði danshöfunda í túlkun dansararanna sem Íslendingarnir buðu uppá í Braga skiluðu sér svo sannarlega í Altice Forum og hinu virðulega Circo Theatre í Braga þar sem dansað var frá morgni til kvölds. Spennan var mikil enda stórkostleg atriði í boði þessa viku sem keppnin stóð yfir,“ segir í tilkynningu.
Þetta var í þriðja skipti sem Ísland tekur þátt í þessari keppni. Fulltrúar Íslands kepptu í Braga fyrir fjórum árum (2019) og í San Sebastian á Spáni í fyrra. Undankeppni á Íslandi er haldin í febrúar ár hvert og hafa þau atriði sem ná yfir 70 stigum kost á að taka þátt í alþjóðakeppninni.
Keppni þessi var fyrst haldin árið 2004 og hefur hún vaxið og stækkað með ári hverju. Það er dansarinn Chantelle Carey sem hafði frumkvæði að þátttöku Íslands í þessu heimsmeistaramóti ungra dansara og hvattíslenska dansskóla til þess að taka þátt og spreyta sig á heimssviðinu gegn jafnöldrum sínum. Hópatriði frá Dansskóla Birnu Björns lenti í fjórða sæti aðeins 0,3 stigum frá bronsverðlaunum og eitt atriði frá JSB komst auk þess í úrslit í lyrical flokknum.
Tvö atriði frá Danskompaní tóku auk þess þátt í Gala-keppni þar sem keppt var þvert á flokka og unnu þau bæði gullverðlaun. Keppnin verður haldin í Tékklandi að ári og má telja líklegt að margir dansskólanna hyggi á för þangað.