Sigurjón Ernir yfirþjálfari og eigandi Ultraform mætti í spjall á FM957 nú fyrir stuttu þar sem hann ræddi afrek sín meðal annars sigurinn á Hengli en þar bætti hann met sitt um tíu mínútur. „Því hraðari hlaupari sem þú ert því erfiðara er að bæta sig,“ segir Sigurjón og heldur áfram. „Ég kem úr sveit og byrjaði að hlaupa þar til að bæta árangur minn í körfuboltanum. Ég var að smala í fjallinu milli þess sem ég lék mér í fjörunni. Það var fjallið, fjaran eða skurðurinn og því hef ég forskot á marga. Þetta er góður grunnur.“
Fólk þarf að passa skammtastærðina
Þú hefur náð frábærum árangri en hver er lykillinn?
„Númer eitt tvö og þrjú þá þjáist ég af brjósklosi sem hefur stöðugt meiri áhrif á mig. Hildur hjá Sjúkrasportinu hef unnið mikið með mig í að styrkja aftari keðju líkamans sem ég held að margir séu að flaska á. Það vantar styrk í samrýnda vöðva. Ég segi hvíld og endurheimt sé lykillinn og þar kemur lifrin inn í. Ég hef alltaf barist við járnskort. Sérstaklega þegar kemur að keppnistímabilum. Lifur er há í járni og fólk þarf að passa sig að borða ekki of mikið af henni. Ég fór fyrir sirka tveimur mánuðum að borða 25 grömm á dag og þá fór allt að klikka. Það er ótrúlegt en það virkar fyrir mig.“
Þetta hljómar nú ekki beint spennandi
„Nei það er margt í lífinu sem er ekki spennandi en þetta er ein næringarríkasta afurð sem við finnum. Áður fyrr borðuðu Íslendingar mikið af lifri og öðrum innimat. Það sem inniheldur mestu næringuna.“
Hræódýrt því enginn borðar þetta
En nú hugsar fólk hvar kaupi ég nautalifur?
„Já það er nefnilega hægara sagt en gert þú færð þetta ekki í venjulegum verslunum. Ástæðan er einföld það er engin sem kaupir þetta. Það er samt hægt að sérpanta hjá kjötbúðum en ég sá þetta í Fiskó fyrir stuttu, í tveggja kílóa umbúðum. Þetta er hræódýrt því það er enginn að borða þetta. Það er galið að næringarfræðigeirinn sé ekki að fókusa meira á það sem inniheldur mestu næringuna.“
Sigurjón heldur sömuleiðis uppi hlaðvarpinu UltraForm þar sem hann hugleiðingum sínum og tilraunum um blóðsykur og efnaskipti. Hann segir að þar sé hægt að læra meira en að lesa nokkrar bækur.
Viðtalið í heild má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.