Fótbolti

Benzema fer frá Real Madrid í sumar

Aron Guðmundsson skrifar
Karim Benzema hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Real Madrid 
Karim Benzema hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Real Madrid 

Franski sóknarmaðurinn Karim Benzema mun yfirgefa herbúðir spænska stórveldisins Real Madrid í sumar. Frá þessu greinir Real Madrid í yfirlýsingu.

Samningur Benzema við félagið er að renna út og verður hann ekki endurnýjaður. Benzema hefur verið á mála hjá Real Madrid síðan árið 2009 er hann gekk til liðs við félagið frá Lyon í Frakklandi.

Talið er að Benzema sé á leið til Sádi-Arabíu og er talið næsta víst að hann semji við Al-Ittihad þar í landi. 

Hjá Real Madrid hefur Benzema unnið allt sem hægt er að vinna, orðið Evrópumeistari fimm sinnum og spænskur meistari fjórum sinnum svo eitthvað er nefnt. 

Í þeim 647 leikjum sem hann lék fyrir félagið skoraði hann 353 mörk og gaf 165 stoðsendingar.

Benzema, sem var árið 2022 valinn besti leikmaður heims, mun kveðja Real Madrid með formlegum hætti á blaðamannafundi næstkomandi þriðjudag og ljóst að hans verður sárt saknað af stuðningsmönnum Real Madrid. 

Titlar Benzema hjá Real Madrid (fjöldi titla): 

  • Meistaradeild Evrópu (5)
  • Spænskur meistari (4)
  • Heimsmeistarakeppni félagsliða (5)
  • Ofurbikar Evrópu (4)
  • Spænskur bikarmeistari (3) 
  • Spænskur ofurbikarmeistari (3) 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×