Sevilla vann sigur á Roma í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gær en leikurinn fór fram á Puskas leikvanginum í Búdapest. Sevilla hafði betur í vítaspyrnukeppni en eftir leik var mikið fjallað um frammistöðu dómarans Anthony Taylor en hann stóð í ströngu í leiknum.
Taylor gaf alls þrettán gul spjöld í leiknum og þar að auki fékk Gonzalo Montiel, leikmaður Sevilla, að endurtaka vítaspyrnu sína í vítaspyrnukeppninni og voru leikmenn Roma sem og þjálfarinn Jose Mourinho afar ósáttir með þá ákvörðun.
Mourinho urðaði yfir Taylor í viðtölum eftir leik og í gærkvöldi birtust myndbönd þar sem hann hellti úr skálum reiði sinnar í bílakjallara leikvangsins þegar Taylor var að yfirgefa svæðið.
Í dag ferðaðist Anthony Taylor ásamt fjölskyldu sinni frá Búdapest en á flugvelli borgarinnar varð hann fyrir aðskasti frá stuðningsmönnum Roma. Vatni var skvett í átt að honum og fjölskyldu hans og auk þess var stól kastað.
Roma fans attacking referee Anthony Taylor at the airport.
— Leeds, That! (@leedsthat) June 1, 2023
What is it with Italians this week? #lufc pic.twitter.com/ODFApCmrXC