Fótbolti

Myrkur yfir Jesú­styttunni til stuðnings við Vinicius

Sindri Sverrisson skrifar
Vinicius Junior bendir á áhorfendur sem beitt höfðu hann kynþáttaníði á leiknum við Valencia á sunnudaginn.
Vinicius Junior bendir á áhorfendur sem beitt höfðu hann kynþáttaníði á leiknum við Valencia á sunnudaginn. Getty/Mateo Villalba

Slökkt var á ljósunum við hina frægu Jesústyttu í Ríó de Janeiro í Brasilíu í gærkvöld, í eina klukkustund, til að sýna stuðning við Vinicius Junior vegna kynþáttaníðsins sem hann hefur orðið fyrir á Spáni.

Umsjónarmenn styttunnar bættust þar með í hóp mikils fjölda fólks sem sýnt hefur Vinicius stuðning eftir að þessi magnaði leikmaður Real Madrid var beittur kynþáttaníði af áhorfendum á útileik gegn Valencia á sunnudaginn.

Styttan stendur í 710 metra hæð og gnæfir yfir íbúum Ríó. Erkibiskupsdæmið sem hefur umsjón með styttunni skipulagði gjörninginn í gærkvöld í samstarfi við brasilíska knattspyrnusambandið og stofnun sem berst gegn kynþáttaníði í fótbolta.

„Erkibiskupsdæmi frelsarans Jesú Krists hafnar þeim kynþáttafordómum sem brasilíski knattspyrnumaðurinn Vinicius Junior hefur orðið fyrir.

Slökkt verður á lýsingu minnisvarðans til tákns um sameiginlega baráttu gegn rasisma, og í samstöðu með leikmanninum og öllum þeim sem verða fyrir fordómum um heim allan,“ sagði í tilkynningu frá stofnunni á Instagram.

Fyrr í gær höfðu brasilísk stjórnvöld kallað eftir því að spænsk stjórnvöld og íþróttamálayfirvöld refsuðu þeim sem stæðu á bakvið „rasísku árásirnar“ á Vinicius, og Gianni Infantino forseti FIFA lýsti yfir stuðningi við leikmanninn.

Þekktar íþróttastjörnur á borð við Kylian Mbappé, Rio Ferdinand og Lewis Hamilton hafa látið í sér heyra og sýnt Vinicius stuðning.

Vinicius birti mynd af Jesústyttunni á Twitter og sagði stuðninginn sem honum var sýndur hafa hreyft við sér. Hann kvaðst þó fyrst og fremst vonast til að verða öðrum innblástur og hleypa meira ljósi inn í baráttuna sem fólk stæði í.

Luis Rubiales, formaður spænska knattspyrnusambandsins, viðurkenndi að kynþáttaníð væri vandamál innan fótboltans í landinu og að „yfirlýsingar í fjölmiðlum dygðu ekki lengur til“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×