Diljá stígur á svið á síðara undankvöldi Eurovision í kvöld og óhætt að segja að stemmningin sé að magnast hjá landanum.
Helgi segist hafa róast töluvert með árunum þar sem partí og áfengisskot einkenndu kvöldið.
„Vanalega var þetta eins og flestir kannast við, bland-sopar fyrir hvert stig sem þitt úthlutaða land þitt fékk og vatnssopi á milli svo þú hangir ekki fyrir framan klósettsetuna áður en að kynnarnir segja „EUROPE START VOTING NOW“. Æ þið vitið,“ útskýrir Helgi með kómísku yfirbragði.
„Eurovision keppnin í fyrra markaði tímamót hjá mér, þar sem ég horfði á keppnina í mesta kósí með sjálfum mér og besta vini mínum Palla í algjöru hljóði með sushi og snakk þar sem ég tók ekki augun af skjánum,“ segir Helgi og viðurkennir að það hafi átt vel við hann.
„Keppnin í ár verður einnig í þeim anda.“
Mömmuþema hjá Helga og Pitta
Helgi horfir á keppnina með Pétri Björgvini Sveinssyni, unnusta sínum, en mömmur þeirra eru líka á kantinum.
„Mömmur eru þema ársins en ég og maðurinn minn ákváðum að vera með mömmu minni á undankeppnunum. Svo fer hún aftur austur á Seyðisfjörð og þá ætlum við að vera með mömmu hans og fjölskyldu meðlimum hans,“ segir Helgi.
„Ég bauð bestu vinum mínum heim þar sem við ætlum að horfa með stigablöðin okkar í hönd og bera saman bækur, spjalla og njóta samverunnar. Ég verð líklegast meira boring með árunum,“ segir Helgi og hlær.
Hann tekur það fram að hann sé tvíburi í stjörnumerki og eigi það til að taka algjöra u-beygju.
„Á næsta ári eru góðar líkur á að ég verði mættur með neglur og hárkollu að garga Tattoo í góðra vina hópi.“
Bingó og stigakeppni rífur upp stemmninguna
Á vef Hinsegin daga má finna stigaspjöld og bingó sem má prenta út fyrir kvöldin.
„Ég mæli með fyrir fjölskyldudúllur að setjast niður og kveikja á keppnisskapinu, borða ógeðslega góðan mat og prenta út skjölin. Hafa gaman, öskra og syngja, “segir Helgi og bætir við:
„Gleðilegt Eurovison gott fólk og skemmtið ykkur vel. Áfram Diljá!!“