Jóhann og félagar höfðu fyrir nokkru tryggt sér sigur í deildinni og sæti í ensku úrvalsdeildinni, en þeir fullkomnuðu tímabilið með 3-0 sigri gegn Cardiff í dag sem kom þeim yfir 100 stiga múrinn.
Jóhann var í byrjunarliðinu og fór af velli eftir að staðan var orðin 3-0 í þessum mikla tímamótaleik, en hann hefur leikið með Burnley frá árinu 2016 eftir að hafa keyptur frá Charlton í kjölfar frammistöðu sinnar á EM í Frakklandi.
A 200th Burnley appearance for JBG today
— Burnley FC (@BurnleyOfficial) May 8, 2023
Fantastic achievement pic.twitter.com/y7Y8EfZVYV
Burnley endaði tímabilið með 101 stig, tíu stigum fyrir ofan Sheffield United, og tapaði aðeins þremur af 46 leikjum sínum í deildinni.
Ljóst var fyrir leiki dagsins að Sheffield United færi með Burnley upp um deild, og að Reading, Blackpool og Wigan myndu falla. Nú er eftir fjögurra liða umspil um eitt laust sæti í úrvalsdeildinni og náði Sunderland að koma sér inn í það umspil í dag með því að vinna Preston North End á útivelli, 3-0.
Millwall kastaði frá sér sæti í umspili
Sigurinn kom Sunderland stigi upp fyrir Millwall, sem tapaði 4-3 fyrir Blackburn á heimavelli eftir að hafa verið 3-1 yfir í hálfleik. Blackburn náði jafnmörgum stigum og Sunderland, eða 69, en var með mun lakari markatölu.
Coventry náði að halda sér í 5. sæti með 1-1 jafntefli við Middlesbrough á útivelli, en ljóst var fyrir leiki dagsins að Luton myndi enda í 3. sæti og Middlesbrough í 4. sæti.
Í umspilinu mætast því Luton og Sunderland annars vegar, 13. og 16. maí, og Middlesbrough og Coventry hins vegar, 14. og 17. maí. Sigurliðin mætast svo á Wembley 27. maí í hreinum úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildinni.