Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Víkingur 0-1 | Dramatík í Eyjum Einar Kárason skrifar 8. maí 2023 20:00 Nikolaj Hansen skoraði sigurmark Víkinga. Vísir/Hulda Margrét Víkingur endurheimti toppsæti Bestu deildar karla í knattspyrnu með dramatískum 1-0 sigri á ÍBV í Vestmannaeyjum í fyrsta leik dagsins. Sigurmarkið kom þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Víkingar mættu til Vestmannaeyja með fullt hús stiga eftir fimm leiki á meðan ÍBV hafði unnið tvo og tapað þremur. Hásteinsvöllur hefur venjulega verið erfiður völlur að sækja og voru það heimamenn sem byrjuðu betur. ÍBV byrjaði með vindinn í bakið og pressuðu gestina hátt í upphafi leiks sem gerði Víkingum erfitt að spila boltanum upp völlinn. Dwayne Atkinson og Richard King voru í byrjunarliði ÍBV en þeir eru nýmættir til landsins frá Jamaíka. Atkinson átti fyrsta alvöru marktækifæri leiksins eftir rúman stundarfjórðung þegar Oliver Heiðarsson gerði vel úti hægra megin og sendi boltann fyrir markið. Atkinson var mættur á fjærstöng en skalli hans ekki nægilega hnitmiðaður og beint í hendur Ingvars Jónssonar. Um miðbik fyrri hálfleiks uxu gestirnir ásmegin og hófu að ógna marki ÍBV. Guy Smit í marki Eyjamanna þurfti að verja vel nokkrum sinnum frá Birni Snæ Ingasyni og Gunnari Vatnhamar en Logi Tómasson fékk líklega besta færi hálfleiksins þegar skammt var eftir. Oliver Ekroth átti langa sendingu yfir flata vörn ÍBV. Logi aleinn gegn Guy en skot hans úr teig ekki nægilega gott og boltinn framhjá stönginni fjær. Hart var tekist á án þess að menn væru sparkaðir niður, þrátt fyrir eitt og eitt brot en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan markalaus. Víkingar héldu uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og voru oft á tíðum nálægt því að koma inn fyrsta markinu. Birnir Snær hélt áfram að ógna með því að koma inn á völlinn og skjóta. Guy þurfti að verja vel frá Birni eftir að kantmaðurinn spræki vann boltann af Richard King og náði fínu skoti að marki. Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkinga, var ekki langt frá því að skora eftir fyrirgjöf frá Davíð Erni Atlasyni en aftur varði Guy. Arnór Borg Guðjohnsen kom inn af bekknum í lið Víkinga og kom boltanum í netið þegar tíu mínútur voru eftir, eftir frábæra fyrirgjöf frá Loga en flaggið fór á loft og markið taldi ekki. Eyjamenn höfðu legið neðarlega á vellinum bróðurpart síðari hálfleiks en sóttu hratt þegar tækifæri gafst. Þegar rétt rúmar fimm mínútur voru eftir af níutíu náði Guðjón Ernir Hrafnkelsson, sem kom inn sem varamaður, hörkuskoti að marki fyrir utan teig. Boltinn beint á Ingvar sem náði ekki að halda honum og var tæpur á að missa boltann milli fóta sér og í netið. Víkingar stálheppnir að lenda ekki undir. Fimm mínútum var bætt við þær níutíu sem spilaðar voru og á lokamínútu uppbótartímans kom loks fyrsta mark leiksins. Fyrirliði Víkinga, Nikolaj Hansen, tók frábærlega á móti boltanum inni í teig ÍBV, snéri af sér varnarmann áður en hann kom góðu vinstri fótar skoti að marki. Boltinn í þverslánna og inn og Víkingar að tryggja sér sjötta sigurinn í jafnmörgum leikjum. Hreint ótrúlegur endir á fjörugum leik. Af hverju unnu Víkingar? Gestirnir sköpuðu sér aragrúa af misgóðum færum sem fóru forgörðum í venjulegum leiktíma en Guy Smit stóð vaktina vel í marki Eyjamanna. Víkingar gáfust hinsvegar aldrei upp í leitinni að sigurmarkinu sem skilaði sér loksins með síðustu spyrnu leiksins. Hverjir stóðu upp úr? Guy Smit varði á köflum mjög vel og hélt ÍBV inni í leiknum. Var hugrakkur og tók alla skyldubolta. Tómas Bent Magnússon var góður á miðjunni ásamt Alex Frey Hilmarssyni. Vörn heimamanna fær líka hrós fyrir alla þá vinnu sem hún lagði til. Nýju mennirnir, Dwayne og Richard stóðu sig prýðilega í sínum fyrsta leik á íslenskri grundu en Richard var heppinn að honum var ekki refsað þegar Birnir Snær stal af honum boltanum. Í liði Víkinga var Birnir Snær skeinuhættur framan af og var líklegastur til afreka. Logi brenndi af dauðafæri en gerði vel í vinstri bakverðinum og átti stórkostlega sendingu í markinu sem dæmt var af. Pablo vann á við tvo gegn Tómasi Bent, Alex Frey og Filip Valencic á miðju ÍBV. Svo er ekki hægt annað en að minnast á Nikolaj Hansen sem auðvitað stendur upp úr þegar hann skorar sigurmark með lokaspyrnu leiksins en hann átti fínan leik heilt yfir. Hvað gekk illa? Nikolaj fékk í tvígang í leiknum að taka tvær snertingar við markteig Eyjamanna og ná skoti að marki. Var nálægt því að skora í fyrra skiptið en tókst það í því síðara. Fátt annað hægt að lasta hjá leikmönnum beggja liða. Logi Tómasson sannaði það reyndar að hann skorar bara stórkostleg mörk en hann klikkaði á líklega besta færi leiksins í fyrri hálfleik. Hvað gerist næst? Eyjamenn gera sér ferð í Garðabæinn á laugardaginn næstkomandi en Víkingur fær FH í heimsókn degi síðar. „Djöfull er ég fúll“ Hermann, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var að vonum svekktur eftir að hafa haldið hreinu í níutíu og fimm mínútur gegn heitasta liði landsins en tapa samt. „Djöfull er þetta fúlt. Sérstaklega þegar þu færð tvö atvik í aðdraganda marksins. Í fyrsta lagi er þetta aldrei aukaspyrna og svo er þetta útspark. Það er mínúta eftir og Víkingar fá bæði vafaatriðin með sér. Er það af því að þetta er stóra liðið?,“ sagði Hermann og vandaði dómara leiksins ekki kveðjurnar. „Þetta er þreytt. Þetta er ekki fyrsta skiptið. Ég er pirraður yfir því en leikurinn var geggjaður. Frábær frammistaða og við hlupum úr okkur lungun gegn frábæru liði. Þeir eru efstir. Ég er ótrúlega ánægður með vinnsluna en ótrúlega fúll að hafa ekki fengið neitt. Rangar ákvarðanir kostuðu okkur.“ „Við fáum fyrstu færin og bestu færin framan af. Það hefði verið gott að nýta þau. Svo fá þeir eitthvað af færum. Þetta var flottur fótboltaleikur og við jöfnuðum þá í þessu fjöri. Þetta var baráttuleikur. Ég er svekktur að hafa ekki fengið neitt þegar við komumst þetta langt. Tvær lélegar dómaraákvarðanir. Bara vitlausar. Það kostaði okkur. Ekki vegna þess að Víkingar hafi átt þetta skilið. Þeir unnu ekki fyrir því heldur dómarinn. Það er þreytt.“ Richard King og Dwayne Atkinson spiluðu sínar fyrstu mínútur fyrir ÍBV í dag, eftir eina æfingu, og var Hermann ánægður með nýju viðbótina. „Þeir voru, eins og allir hinir, frábærir. Þeir eru nýkomnir til landsins og eru sniðnir inn í þetta hjá okkur. Mér fannst þeir báðir eiga stórleik. Hrikalega flottir, eins og allir í liðinu.“ „Djöfull er ég fúll,“ sagði Hermann, brosandi gegnum pirringinn, að lokum. Hef aldrei séð hann gera þetta áður og mun aldrei sjá aftur held ég Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.Vísir/Hulda Margrét „Fögnuðurinn sem við fengum inni í búningsklefa er eitthvað sem þú færð ekki að upplifa í neinu öðru starfi í heiminum,” sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir dramatíkina í Eyjum. ,,Ótrúleg endalok en sanngjarn sigur. Við spiluðum flekklaust, komandi í þessar aðstæður. Það hefur kannski verið kósí inni í stofu að horfa í sjónvarpinu en hræðilegar aðstæður og hræðilegur völlur. Við stjórnuðum leiknum mjög vel.“ „Eins og ég sagði við þig fyrir leikinn þá var þetta ekki tiki-taka, áferðafallegur fótbolti en úr verður samt skemmtilegur leikur. Það er það sem ég sagði við strákana áður en við fórum út að standast þessa áskorun að spila við mismunandi aðstæður, sýna stærra hjarta og reyna að hafa gaman að spila við svona áskorun.“ Sex leikir. Sex sigrar. Fullt hús. „Ég veit ekki með meistaraheppni. Hefði alveg eins getað verið meistaraóheppni hefðum við ekki skorað. Mér fannst við eiga þetta skilið. Oftast, ef þú leggur þig fram þá færðu verðlaun í lokin, Við misstum aldrei trúna. Skiptingarnar komu inn á réttum tímapunkti. Það er erfitt að verjast einhverju í rúmar níutíu mínútur. Vestmannaeyjingum tókst það mjög vel og sýndu greinilegt hjarta en betra liðið vann í dag.“ „Ég á eftir að sjá endursýningu en hann sveiflaði fætinum einhvernveginn. Ég hef aldrei séð hann [Nikolaj Hansen] gera þetta áður og mun aldrei sjá aftur held ég. Hann hefur verið frábær karakter fyrir okkur öll þessi ár og er að stíga upp sem fyrirliði og sem persóna. Það er ekkert svalara í fótbolta en senter sem er fyrirliði og skorar mörk,“ sagði Arnar um fyrirliða sinn að lokum. Besta deild karla ÍBV Víkingur Reykjavík
Víkingur endurheimti toppsæti Bestu deildar karla í knattspyrnu með dramatískum 1-0 sigri á ÍBV í Vestmannaeyjum í fyrsta leik dagsins. Sigurmarkið kom þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Víkingar mættu til Vestmannaeyja með fullt hús stiga eftir fimm leiki á meðan ÍBV hafði unnið tvo og tapað þremur. Hásteinsvöllur hefur venjulega verið erfiður völlur að sækja og voru það heimamenn sem byrjuðu betur. ÍBV byrjaði með vindinn í bakið og pressuðu gestina hátt í upphafi leiks sem gerði Víkingum erfitt að spila boltanum upp völlinn. Dwayne Atkinson og Richard King voru í byrjunarliði ÍBV en þeir eru nýmættir til landsins frá Jamaíka. Atkinson átti fyrsta alvöru marktækifæri leiksins eftir rúman stundarfjórðung þegar Oliver Heiðarsson gerði vel úti hægra megin og sendi boltann fyrir markið. Atkinson var mættur á fjærstöng en skalli hans ekki nægilega hnitmiðaður og beint í hendur Ingvars Jónssonar. Um miðbik fyrri hálfleiks uxu gestirnir ásmegin og hófu að ógna marki ÍBV. Guy Smit í marki Eyjamanna þurfti að verja vel nokkrum sinnum frá Birni Snæ Ingasyni og Gunnari Vatnhamar en Logi Tómasson fékk líklega besta færi hálfleiksins þegar skammt var eftir. Oliver Ekroth átti langa sendingu yfir flata vörn ÍBV. Logi aleinn gegn Guy en skot hans úr teig ekki nægilega gott og boltinn framhjá stönginni fjær. Hart var tekist á án þess að menn væru sparkaðir niður, þrátt fyrir eitt og eitt brot en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan markalaus. Víkingar héldu uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og voru oft á tíðum nálægt því að koma inn fyrsta markinu. Birnir Snær hélt áfram að ógna með því að koma inn á völlinn og skjóta. Guy þurfti að verja vel frá Birni eftir að kantmaðurinn spræki vann boltann af Richard King og náði fínu skoti að marki. Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkinga, var ekki langt frá því að skora eftir fyrirgjöf frá Davíð Erni Atlasyni en aftur varði Guy. Arnór Borg Guðjohnsen kom inn af bekknum í lið Víkinga og kom boltanum í netið þegar tíu mínútur voru eftir, eftir frábæra fyrirgjöf frá Loga en flaggið fór á loft og markið taldi ekki. Eyjamenn höfðu legið neðarlega á vellinum bróðurpart síðari hálfleiks en sóttu hratt þegar tækifæri gafst. Þegar rétt rúmar fimm mínútur voru eftir af níutíu náði Guðjón Ernir Hrafnkelsson, sem kom inn sem varamaður, hörkuskoti að marki fyrir utan teig. Boltinn beint á Ingvar sem náði ekki að halda honum og var tæpur á að missa boltann milli fóta sér og í netið. Víkingar stálheppnir að lenda ekki undir. Fimm mínútum var bætt við þær níutíu sem spilaðar voru og á lokamínútu uppbótartímans kom loks fyrsta mark leiksins. Fyrirliði Víkinga, Nikolaj Hansen, tók frábærlega á móti boltanum inni í teig ÍBV, snéri af sér varnarmann áður en hann kom góðu vinstri fótar skoti að marki. Boltinn í þverslánna og inn og Víkingar að tryggja sér sjötta sigurinn í jafnmörgum leikjum. Hreint ótrúlegur endir á fjörugum leik. Af hverju unnu Víkingar? Gestirnir sköpuðu sér aragrúa af misgóðum færum sem fóru forgörðum í venjulegum leiktíma en Guy Smit stóð vaktina vel í marki Eyjamanna. Víkingar gáfust hinsvegar aldrei upp í leitinni að sigurmarkinu sem skilaði sér loksins með síðustu spyrnu leiksins. Hverjir stóðu upp úr? Guy Smit varði á köflum mjög vel og hélt ÍBV inni í leiknum. Var hugrakkur og tók alla skyldubolta. Tómas Bent Magnússon var góður á miðjunni ásamt Alex Frey Hilmarssyni. Vörn heimamanna fær líka hrós fyrir alla þá vinnu sem hún lagði til. Nýju mennirnir, Dwayne og Richard stóðu sig prýðilega í sínum fyrsta leik á íslenskri grundu en Richard var heppinn að honum var ekki refsað þegar Birnir Snær stal af honum boltanum. Í liði Víkinga var Birnir Snær skeinuhættur framan af og var líklegastur til afreka. Logi brenndi af dauðafæri en gerði vel í vinstri bakverðinum og átti stórkostlega sendingu í markinu sem dæmt var af. Pablo vann á við tvo gegn Tómasi Bent, Alex Frey og Filip Valencic á miðju ÍBV. Svo er ekki hægt annað en að minnast á Nikolaj Hansen sem auðvitað stendur upp úr þegar hann skorar sigurmark með lokaspyrnu leiksins en hann átti fínan leik heilt yfir. Hvað gekk illa? Nikolaj fékk í tvígang í leiknum að taka tvær snertingar við markteig Eyjamanna og ná skoti að marki. Var nálægt því að skora í fyrra skiptið en tókst það í því síðara. Fátt annað hægt að lasta hjá leikmönnum beggja liða. Logi Tómasson sannaði það reyndar að hann skorar bara stórkostleg mörk en hann klikkaði á líklega besta færi leiksins í fyrri hálfleik. Hvað gerist næst? Eyjamenn gera sér ferð í Garðabæinn á laugardaginn næstkomandi en Víkingur fær FH í heimsókn degi síðar. „Djöfull er ég fúll“ Hermann, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var að vonum svekktur eftir að hafa haldið hreinu í níutíu og fimm mínútur gegn heitasta liði landsins en tapa samt. „Djöfull er þetta fúlt. Sérstaklega þegar þu færð tvö atvik í aðdraganda marksins. Í fyrsta lagi er þetta aldrei aukaspyrna og svo er þetta útspark. Það er mínúta eftir og Víkingar fá bæði vafaatriðin með sér. Er það af því að þetta er stóra liðið?,“ sagði Hermann og vandaði dómara leiksins ekki kveðjurnar. „Þetta er þreytt. Þetta er ekki fyrsta skiptið. Ég er pirraður yfir því en leikurinn var geggjaður. Frábær frammistaða og við hlupum úr okkur lungun gegn frábæru liði. Þeir eru efstir. Ég er ótrúlega ánægður með vinnsluna en ótrúlega fúll að hafa ekki fengið neitt. Rangar ákvarðanir kostuðu okkur.“ „Við fáum fyrstu færin og bestu færin framan af. Það hefði verið gott að nýta þau. Svo fá þeir eitthvað af færum. Þetta var flottur fótboltaleikur og við jöfnuðum þá í þessu fjöri. Þetta var baráttuleikur. Ég er svekktur að hafa ekki fengið neitt þegar við komumst þetta langt. Tvær lélegar dómaraákvarðanir. Bara vitlausar. Það kostaði okkur. Ekki vegna þess að Víkingar hafi átt þetta skilið. Þeir unnu ekki fyrir því heldur dómarinn. Það er þreytt.“ Richard King og Dwayne Atkinson spiluðu sínar fyrstu mínútur fyrir ÍBV í dag, eftir eina æfingu, og var Hermann ánægður með nýju viðbótina. „Þeir voru, eins og allir hinir, frábærir. Þeir eru nýkomnir til landsins og eru sniðnir inn í þetta hjá okkur. Mér fannst þeir báðir eiga stórleik. Hrikalega flottir, eins og allir í liðinu.“ „Djöfull er ég fúll,“ sagði Hermann, brosandi gegnum pirringinn, að lokum. Hef aldrei séð hann gera þetta áður og mun aldrei sjá aftur held ég Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.Vísir/Hulda Margrét „Fögnuðurinn sem við fengum inni í búningsklefa er eitthvað sem þú færð ekki að upplifa í neinu öðru starfi í heiminum,” sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir dramatíkina í Eyjum. ,,Ótrúleg endalok en sanngjarn sigur. Við spiluðum flekklaust, komandi í þessar aðstæður. Það hefur kannski verið kósí inni í stofu að horfa í sjónvarpinu en hræðilegar aðstæður og hræðilegur völlur. Við stjórnuðum leiknum mjög vel.“ „Eins og ég sagði við þig fyrir leikinn þá var þetta ekki tiki-taka, áferðafallegur fótbolti en úr verður samt skemmtilegur leikur. Það er það sem ég sagði við strákana áður en við fórum út að standast þessa áskorun að spila við mismunandi aðstæður, sýna stærra hjarta og reyna að hafa gaman að spila við svona áskorun.“ Sex leikir. Sex sigrar. Fullt hús. „Ég veit ekki með meistaraheppni. Hefði alveg eins getað verið meistaraóheppni hefðum við ekki skorað. Mér fannst við eiga þetta skilið. Oftast, ef þú leggur þig fram þá færðu verðlaun í lokin, Við misstum aldrei trúna. Skiptingarnar komu inn á réttum tímapunkti. Það er erfitt að verjast einhverju í rúmar níutíu mínútur. Vestmannaeyjingum tókst það mjög vel og sýndu greinilegt hjarta en betra liðið vann í dag.“ „Ég á eftir að sjá endursýningu en hann sveiflaði fætinum einhvernveginn. Ég hef aldrei séð hann [Nikolaj Hansen] gera þetta áður og mun aldrei sjá aftur held ég. Hann hefur verið frábær karakter fyrir okkur öll þessi ár og er að stíga upp sem fyrirliði og sem persóna. Það er ekkert svalara í fótbolta en senter sem er fyrirliði og skorar mörk,“ sagði Arnar um fyrirliða sinn að lokum.
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26 | Einn stærsti sigur íslensks kvennafélagsliðs Handbolti
Leik lokið: Valur - Malaga Costa Del Sol 31-26 | Einn stærsti sigur íslensks kvennafélagsliðs Handbolti