Körfubolti

Valsmenn geta orðið aðeins fimmta liðið til að koma til baka úr 0-2

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Styrmir Snær Þrastarson hefur verið frábær í einvíginu.
Styrmir Snær Þrastarson hefur verið frábær í einvíginu. Vísir/Bára

Valsmenn hafa náð að jafna undanúrslitaeinvígið sitt á móti Þór eftir að Þórsarar unnu tvo fyrstu leikina í einvíginu.

Sigur Valsmanna í fjórða leiknum í Þorlákshöfn þýðir að liðin mætast í kvöld í hreinum úrslitaleik um sæti í lokaúrslitum Subway deildar karla í körfubolta.

Oddaleikurinn fer fram í Origo höllinni á Hlíðarenda og hefst klukkan 20.15. Útsending Stöðvar 2 Sport hefst klukkan 19.45.

Aðeins fjögur lið í sögu úrslitakeppni karla í körfubolta hafa komið til baka eftir að hafa lent 2-0 undir í einvígi þar sem þarf að vinna þrjá leiki.

Þetta eru Keflvíkingar 2008, Haukar 2015, Þórsarar 2019 og ÍR-ingar 2019. Haukar, Þór og ÍR náðu þessu í átta liða úrslitum en Keflvíkingar komust í úrslit eftir að hafa unnið upp 2-0 forskot ÍR-inga í undanúrslitunum vorið 2008.

Keflavíkurliðið endaði á því að vinna sex síðustu leiki sína í úrslitakeppninni og verða Íslandsmeistari eftir 3-0 sigur á Snæfelli í lokaúrslitunum.

Líkt og Valsmenn þá voru Keflvíkingar á heimavelli í oddaleiknum 2008 en fyrir fjórum árum þá unnu bæði Þórsarar og ÍR-ingar oddaleikinn á útivelli. Haukar unnu oddaleikinn sinn 2015 á heimavelli.

Þórsliðið hefur þegar unnið einn oddaleik á útivelli í þessari úrslitakeppni því liðið vann tveggja stiga sigur á Haukum á Ásvöllum, 95-93, í rosalegum leik.

Þórsarar hafa í raun unnið þrjá oddaleiki í röð því þeir unnu einnig Stjörnuna í undanúrslitunum 2021 og Tindastól í átta liða úrslitunum 2019. Þórsarar töpuðu síðast í oddaleik á móti Grindavík í átta liða úrslitum 2017.

Valsmenn voru síðast í oddaleik í lokaúrslitunum í fyrra þegar þeir unnu Tindastól með þrettán stigum, 73-60, á Hlíðarenda. Þar áður töpuðu þeir í oddaleik á heimavelli á móti KR í átta liða úrslitum 2021.

Liðin sem hafa komið til baka eftir að hafa lent 2-0 undir:

  • Keflavík í undanúrslitum á móti ÍR 2008
  • Oddaleikur: Keflavík vann 20 stiga sigur í Keflavík (93-73)
  • Haukar í átta liða úrslitum á móti Keflavík 2015
  • Oddaleikur: Haukar unnu 17 stiga sigur á Ásvöllum (96-79)
  • ÍR í átta liða úrslitum á móti Njarðvík 2019
  • Oddaleikur: ÍR vann 12 stiga sigur í Njarðvík (86-74)
  • Þór Þorl. í átta liða úrslitum á móti Tindastól 2019
  • Oddaleikur: Þór vann 1 stigs sigur á Króknum (94-93)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×