Tónlist

Birgitta Líf gerist um­boðs­maður Pretty­boitjokko: „Þetta verður næsta popp­stjarna Ís­lands“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Birgitta Líf er nýr umboðsmaður tónlistarmannsins Patriks.
Birgitta Líf er nýr umboðsmaður tónlistarmannsins Patriks. Instagram

Tónlistarmaðurinn Patrik Atlason, sem einnig er þekktur sem Prettyboitjokko, hefur ráðið athafnakonuna og raunveruleikastjörnuna Birgittu Líf Björnsdóttur sem umboðsmann. 

Frægðarsól Patriks hefur risið nokkuð hratt undanfarnar vikur eða allt frá því að hann gaf út smellinn Prettyboitjokko í byrjun mars.

Hingað til hefur það verið fótboltamaðurinn Adam Pálsson sem hefur gegnt hlutverki umboðsmanns Patriks en honum var nýlega sagt upp störfum.

Patrik var gestur þeirra Gústa B og Páls Orra í þættinum Veislunni í gær. Þar greindi hann frá því að hann hefði gefið Adam rauða spjaldið eftir að honum láðist að redda honum léninu pbt.is.

Í kjölfar brottreksturs Adams hafi fjölmargir sótt um stöðu umboðsmanns Patriks. Þá voru meðal annars viðræður við fjölmiðlamennina Rikka G og Mána Pétursson. Að lokum var það þó Birgitta Líf sem varð fyrir valinu.

Hér fyrir neðan má hlusta á brot úr Veislunni þar sem Patrik ræðir ástæðu brottreksturs Adams.

Sá fyrir sér að þau gætu gert stóra hluti

Birgitta er enginn nýgræðingur þegar kemur að umboðsmennsku eða tónlistarbransanum. Hún hefur síðustu tvö ár verið umboðsmaður tónlistarmannsins Húgós. Þá rekur hún skemmtistaðinn Bankastræti þar sem hún hefur reglulega haldið tónlistarviðburði.

„Þetta kom þannig til að Patrik spyr mig, að ég hélt í meira gríni en alvöru, hvort ég vildi vera umboðsmaðurinn hans. Þetta var áður en hann gaf út fyrsta lagið sitt og ég vissi í rauninni ekki að honum væri alvara með þessum tónlistarferli. Þannig ég pældi ekkert meira í þessu,“ segir Birgitta Líf í samtali við Vísi.

Það var ekki fyrr en hún sá Patrik spila á Bankastræti að hún fór að sjá möguleikana.

„Ég sá bara strax að hann væri einhvern veginn með þetta. Það að koma koma fram er ekkert fyrir alla, en hann var með sviðsframkomuna og allan pakkan. Hann var meira að segja kallaður aftur upp á svið til þess að taka lagið aftur, sem ég hef sjaldan upplifað. Þá fór ég að hugsa að það væri kannski ekkert svo galin hugmynd að ég myndi sjá um bókanir fyrir hann og að við gætum gert frekar stóra hluti,“ segir hún.

Plata væntanleg: „Við ætlum að taka yfir“

Framundan hjá tónlistarmanninum Patrik er útgáfa fimm laga plötu sem væntanleg er í næstu viku. Þá er á dagskrá dansmyndband sem Patrik og Birgitta hafa verið að vinna að undanfarið. Patrik og Birgitta tilkynntu samstarfið á Instagram í dag og eru tölvupóstarnir strax farnir að hrannast inn.

„Svo ætlum við bara að taka yfir. Þetta verður næsta poppstjarna Íslands.“
Helgi í Góu, afi Patriks, og Bjössi í World Class, faðir Birgittu, handsöluðu umboðssamninginn.Skjáskot

Bjössi í World Class og Helgi í Góu handsöluðu samninginn

Í nýju myndbandi sem Birgitta og Patrik birtu á Instagram má sjá þau hittast á dularfullum fundi í höfuðstöðvum World Class. Þangað mæta einnig athafnamennirnir Björn Leifsson, faðir Birgittu og eigandi World Class, og Helgi Vilhjálmsson, afi Patriks og eigandi Góu og KFC.

Í myndbandinu má sjá þau renna í hlað fyrir utan Laugar á glæsibifreiðum sínum, áður en þau fara yfir umboðssamninginn ásamt ráðgjöfum sínum. Að lokum skrifa þau öll fjögur undir og viðskiptajöfrarnir takast í hendur. Má gera ráð fyrir því að farsælt og spennandi samstarf sé í vændum.


Tengdar fréttir

Hvetur stráka til að hugsa vel um útlitið

Tónlistarmaðurinn Patrik var að senda frá sér sitt fyrsta lag, Prettyboytjokkó, fyrir rúmri viku síðan en lagið er komið í fjórtánda sæti Íslenska listans á FM. Blaðamaður tók púlsinn á honum og fékk að heyra nánar frá laginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.