Lífið

Líður stundum eins og hann sé ekki alvöru manneskja

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Haraldur er opinskár með það að hann hafi lengi langað til þess að fá að leika. Draumurinn hefur loksins ræsts.
Haraldur er opinskár með það að hann hafi lengi langað til þess að fá að leika. Draumurinn hefur loksins ræsts. Vísir/Vilhelm

Haraldur Þorleifsson, betur þekktur sem Halli í Ueno, lét draum sinn rætast og lék í alþjóðlegri kvikmynd í síðustu viku. Hann segir leiklistina henta sér vel því oft líði honum eins og hann þurfi að leika sig í gegnum hversdaginn.

„Ég veit ekkert hvað ég má segja þér,“ segir Halli léttur í bragði í samtali við Vísi. Hann bætir því svo við hlæjandi að hann hafi reyndar ekki verið beðinn um að halda nein leyndarmál.

Kvikmyndin sem Halli leikur í er þýsk og er framleidd af Warner Brothers kvikmyndaverinu. Halli útskýrir að hún heiti Ein milljónir mínútna og byggi á sannsögulegri bók um fjölskylduföður sem ákveður að hætta í vinnunni og ferðast með dóttur sinni og fjölskyldu í einar milljón mínútur.

„Þau fara á flakk út um allan heim og myndin er tekin upp í Þýskalandi, Tælandi og síðan á Íslandi. Við vorum við tökur til dæmis á Eyrarbakka, í Hvalfirði og í Laxnesi.“

Halli greinir meðal annars frá nýorðnum leiklistarferli á Twitter. Þar segist hann sérstaklega spenntur fyrir því að taka að sér hlutverk illmennis.

Halli segist ekki hafa búist við því að fá nokkurn tímann að leika í kvikmynd. Hann steig sín fyrstu skref í síðasta Áramótaskaupi en hafði aldrei leikið neitt að ráði fram að því.

„Ég var farinn að hugsa um það hvað það yrði gaman að leika áður en ég kom fram í skaupinu. Síðan hafði þetta kvikmyndateymi samband við mig og þau buðu mér prufu. Svo bara fékk ég hlutverkið, sem kom mjög á óvart!“ segir Haraldur enn hlæjandi.

Leikur sig í gegnum daginn

Teymið hefur verið hér á landi síðustu vikur við tökur. Alls var Haraldur til staðar á settinu í þrjá daga.

Spurður hvort það sé ekki frekar mikið fyrir aukaleikara segir Haraldur á léttum nótum: „Ég veit það ekki, ég hef aldrei verið í bíómynd áður!“

Halli var óhræddur við að slá á létta strengi á meðan tökum stóð. 

„Það kom mér mjög á óvart hvað þetta varð stórt hlutverk. Ég fæ alveg nokkrar línur og fæ að tala í frekar djúsí atriðum.“

Talið berst að því hvaðan áhuginn á leiklistinni hafi komið.

„Mig hefur oft langað til að prófa að leika því að mér líður oft ekki eins og ég sé alvöru manneskja,“ segir Haraldur og berskjaldar sig á sinn einstaka hátt.

„Þá þarf ég stundum að prófa að setja mig í þessi spor og leika mig í gegnum daginn. Þannig mér fannst þetta mjög náttúrulegt.“

Til í að leika meira

Halli segir að sér hafi mest komið á óvart það sem komi flestum á óvart sem taka þátt í kvikmyndagerð í fyrsta sinn; Hversu langur tími fer í allar tökur.

„Þetta var rosamikil biði og hangs, það er magnað hvað það tekur langan tíma að taka upp til að mynda stutt atriði. Það þarf að íhuga þau á svo marga vegu, taka þau oft upp og þá út frá svo mörgum hliðum.“

Hann bætir því við að kvikmyndateymið hafi verið til fyrirmyndar og samstarfið gengið vel. Mest var Haraldur í tíu tíma í tökum í einu.

Ætlarðu að leika meira?

„Mér fannst þetta gaman. Þannig að ef einhver vill fá mig í það, þá er ég klár,“ segir Halli léttur í bragði.

Haraldur var að sjálfsögðu ekki rekinn að loknum fyrsta degi við tökur. 


Tengdar fréttir

„Stærsta sorg sem ég hef lent í“

Haraldur Ingi Þorleifsson stofnaði sitt eigið fyrirtæki í stofunni heima hjá sér árið 2014. Hugmyndin var þá að stofna lítið félag utan um þau verkefni sem hann var sjálfur að vinna í lausamennsku sem hönnuður á ýmiskonar vefsíðum, öppum og öðru skjáefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.