Sama hrafnaparið hefur komið sér upp laup við Byko síðustu ár. Laupurinn núna er reyndar aðeins neðar en síðustu ár. Hröfnunum virðist líða vel á þessum stað enda eru komin sjö egg í laupinn, sem þykir mjög mikið þegar hrafnar eru annars vegar.
„Þetta er níunda árið, sem þeir eru hjá okkur. Þetta er mikil skemmtun fyrir aðra og við settum upp myndavél fyrir nokkrum árum og höfum leyft fólki að fylgjast með. Það er fólk út um allan heim að fylgjast með þessu alveg til Ástralíu og víðar. Mér sýnist þetta vera þannig að kerlingin liggur á og karlinn skaffar æti,“ segir Grétar Ingi Sigurðsson, verslunarstjóri hjá Byko á Selfossi.

Starfsmenn Byko gefa líka fuglunum og þá eru þeir kallaðir í mat.
Og það stendur ekki á viðbrögðunum, þá koma Hrefna og Hrafn fljúgandi til að sækja matinn og fara með hann á leynistað skammt frá Byko. Þau ætla greinilega að eiga nóg þegar ungarnir sjö klekjast út úr eggjunum.

Og heldur þú að það verði pláss fyrir sjö unga í laupnum?
„Já, já, þau hljóta að hafa pláss. Það er allt skemmtilegt í kringum laupinn og fuglana, til dæmis bara í morgun var hér skólahópur af krökkum að skoða og eru búin að vera að kynna sér þetta,“ segir Grétar Ingi.
En það er ekki bara laupurinn við Byko, það er annar laupur skammt frá versluninni í þyrpingu grenitrjáa.
Ekki hefur verið laupur þarna áður svo vitað sé til og engin hefur hugmynd um hvort það sé komin egg í laupinn og hvað þau eru mörg, enda krummaparið hér ekki í beinni útsendingu allan sólarhringinn eins og parið við Byko. Þeir sem vilja fylgjast með útsendingunni þar gegna farið inn á heimasíðu Byko.
