Sport

„Við vorum ekki með hann inni í vítateignum þeirra og þá er erfitt að skora"

Jón Már Ferro skrifar

„Það er geggjað að þetta sé byrjað, búinn að hlakka til lengi. Svekkjandi að það sé ekki betri niðurstaða," sagði Guðmundur Kristjánsson, miðjumaður Stjörnunnar, eftir tap á móti Víkingum á Samsungvellinum í kvöld. Leikið var í fyrstu umferð Bestu deildar karla.

Guðmundur Kristjánsson gekk í raðir Stjörnunnar frá FH eftir síðasta tímabil. Hjá FH spilaði hann mest megnis í miðverði en hefur spilað í vetur á miðjunni og sömuleiðis í kvöld.

„Ég er búinn að spila hérna allt undirbúningstímabilið þannig það er planið allavega eins og er, sjáum til hvort það breytist eitthvað."

Stjörnumenn áttu oft á tíðum erfitt með að komast nógu nálægt leikmönnum Víkinga þegar þeir síðarnefndu voru með boltann.

„Augljóslega ekki nógu vel, skorum ekki og fáum á okkur tvö. Það gekk illa stundum að klukka þá í pressunni. Sköpuðum ekki nóg heldur þannig þetta missti aðeins marks. Fínt að sjá hvað við vorum að gera vitlaust og laga það fyrir næsta leik."

Stjarnan breytti taktíkinni sinni í seinni hálfleik, fóru úr 4-4-2 í 4-3-3.

„Þeir spila þetta vel og það er erfitt að pressa þá stundum. Þurftum aðeins að breyta til til að gera það betur, tókst á köflum. Heillt yfir gekk það ekki alveg nógu vel fannst mér."

Guðmundur var á því að það hafi vantað meira bit í sóknarleik þeirra undir lok leiks.

„Við vorum ekki með hann inni í vítateignum þeirra og þá er erfitt að skora. Við vorum svolítið í seinni hálfleik að sparka honum aðeins of mikið langt án þess að skapa mikið. Við vorum að halda honum vel aftarlega á vellinum. Það vantaði að koma honum inn í boxið og skapa færi."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×