Lífið

Ís­lenskur kokka­nemi vann Masterchef í Noregi

Máni Snær Þorláksson skrifar
Róbert Ómarsson stóð uppi sem sigurvegari í Masterchef - Unge Talenter.
Róbert Ómarsson stóð uppi sem sigurvegari í Masterchef - Unge Talenter. Aðsend

Róbert Ómarsson, Íslendingur sem búsettur er í Noregi, stóð uppi sem sigurvegari í Masterchef – Unge Talenter í Noregi. Hann er á þriðja ári í kokkanáminu og starfar sem kokkanemi á Michelin-veitingastað í Osló.

„Þetta var geðveikt,“ segir Róbert um keppnina í samtali við blaðamann. Hugmyndin um að keppa í Masterchef kom þegar hann var að taka þátt í skólakeppni í eldamennsku.

Á þessari keppni var stödd kona sem var að tala um Masterchef og auglýsa keppnina. Róbert og vinir hans töluðu saman um að skrá sig í keppnina þar sem hún fór fram og var tekin upp á meðan þau voru í sumarfríi í fyrra. Það endaði þó með að Róbert var sá eini í vinahópnum sem tók þátt þar sem hin í hópnum ákváðu að vinna um sumarið.

Það reyndist gæfurík ákvörðun því Róbert stóð uppi sem sigurvegari. Hann er í dag átján ára gamall en var sautján ára þegar þáttaröðin var tekin upp í fyrra. Um er að ræða Masterchef keppni fyrir ungmenni.

Verðlaunin fyrir að vinna keppnina voru síðan ekki af verri endanum:

„Ég vann ferð til Frakklands á Bocuse d‘Or, stærstu kokkakeppni í heimi,“ segir hann.

Róbert eldar hér einn af þeim réttum sem komu honum í úrslit Masterchef - Unge Talenter.Aðsend

Skemmtilegast að elda fyrir besta unga kokk í heimi

Róbert segir að keppnin og allt í kringum hana hafi verið skemmtilegt. Upptökudagarnir hafi verið langir en þegar þeim var lokið hafi hann skemmt sér, til að mynda á hótelinu og ströndinni.

Honum fannst skemmtilegast að taka upp níunda þáttinn í þáttaröðinni:

„Ég kannaðist við kokkinn sem kom þá, ég held að hann hafi unnið besti ungi kokkur í heiminum. Við gerðum nokkra rétti sem hann hefur búið til. Það gekk mjög vel.“

Sem fyrr segir stundar Róbert kokkanám í Noregi. Hann segir námið þar virka þannig að fólk er í fjögur ár í náminu, tvö ár í skóla og svo tvö ár sem nemi á veitingastað.

„Ég er á fyrsta ári sem nemi, þannig ég er á þriðja ári og á eitt og hálft ár eftir. Þetta er skemmtilegt á hverjum degi. Ég þekki helling af fólki sem er á sama aldri og ég og er að gera þetta. Við erum bara á fullu í þessu.“

Finnst gaman að prófa eitthvað nýtt

Svo virðist vera sem Róbert sé búinn að finna sína hillu í lífinu. Hann starfar nú á Statholdergaarden en sá veitingastaður er með eina Michelin stjörnu. Um er að ræða veitingastað sem sérhæfir sig í franskri og skandinavískri matargerð. Róbert segir þó að hann eigi sér ekki neina eina uppáhalds matargerð:

„Mér finnst alltaf gaman að finna eitthvað nýtt og prófa eitthvað nýtt. Ég veit ekki hvort ég sé með eitthvað uppáhald. Þar sem ég er að vinna erum við með svona franskt skandinavískt mix þannig ég geri það alveg helling núna. Við skiptum um matseðil á sex vikna fresti, þannig við breytum alveg oft.“

Róbert virðist hafa fundið sína hillu í lífinu.Aðsend

Þá sér hann fyrir sér að búa áfram í Noregi en hann vill líka prófa að elda og búa í fleiri Norðurlöndum.

„Ég er búinn að búa í Noregi síðan 2008 þannig ég er búinn að vera hérna lengi. Mig langar að vera í Noregi en mig langar líka að prófa að vinna í Svíþjóð, Danmörku og Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.