Portúgalir áttu ekki í neinum vandræðum með Lúxemborg þegar liðin mættust í kvöld en eftir hálftíma leik var staðan orðin 0-4, Portúgal í vil, þar sem Cristiano Ronaldo gerði tvö mörk auk þess sem Joao Felix og Bernardo Silva gerðu sitt markið hvor.
Otavio og Rafael Leao bættu við mörkum áður en yfir lauk og lokatölur því 0-6 sem var síst of stór sigur þar sem Leao brenndi meðal annars af vítaspyrnu seint í leiknum auk þess sem heimamenn björguðu á síðustu stundu oftar en einu sinni í leiknum.
Bosníumenn náðu ekki að fylgja á eftir 3-0 sigri sínum á Íslandi á dögunum þegar þeir heimsóttu Slóvakíu í kvöld. Lukas Haraslin og Robert Mak náðu tveggja marka forystu fyrir heimamenn í fyrri hálfleik sem hélst þeim allt til enda og 2-0 sigur Slóvakíu staðreynd.
Á sama tíma í A-riðli vann Ítalía öruggan útisigur á Möltu, 0-2 á meðan Finnar gerðu góða ferð til Norður-Írlands í H-riðli og unnu 0-1 sigur.