Gestirnir í West Ham héldu hreinu í fyrri hálfleik og staðan var því enn 0-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Flóðgáttirnar opnuðust þó í síðari hálfleik þar sem Katie Zelem kom heimakonum yfir með marki úr vítaspyrnu á 52. mínútu áður en Lucia Garcia Cordoba tvöfaldaði forystu United rúmum tíu mínútum síðar.
Hayley Ladd bætti svo þriðja marki heimakvenna við stuttu fyrir leikslok áður en áðurnefnd Lucia Garcia Cordoba negldi seinasta naglann í kistu West Ham í uppbótartíma með sínu öðru marki.
Niðurstaðan því öruggur 4-0 sigur United sem trónir á toppi ensku deildarinnar með 38 stig eftir 16 leiki. Gengi West Ham hefur hins vegar ekki verið upp á marga fiska undanfarnar vikur, en liðið er nú án sigurs í seinustu sex leikjum og situr í sjöunda sæti deildarinnar með 16 stig eftir jafn marga leiki.