Leikur Grindavíkur og Hattar í Subway-deildinni í gær hafði allt upp á að bjóða sem góðan körfuboltaleik sæmir. Grindvíkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Höttur kom til baka eftir hlé og náði mest níu stiga forystu í fjórða leikhlutanum.
Undir lokin var spennan síðan mikil. Grindvíkingar komust einu stigi yfir með þriggja stiga skoti frá Damier Pitts en Pitts fór svo afar illa að ráði sínu í tvígang þegar hann tapaði boltanum við miðlínu og færði Hetti fjögur auðveld stig.
Þegar þrettán sekúndur voru eftir voru Hattarmenn tveimur stigum yfir og áttu innkast á vallarhelmingi Grindavíkur. Heimamenn náðu að stela boltanum, Pitts fór fram völlinn og tók galið þriggja stiga skot sem endaði ofan í körfunni. Lokaskot Hattar geigaði og Grindavík fagnaði eins stigs sigri.
Lokasekúndurnar úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.