Fótbolti

Bróðir Messi þurfti að biðjast af­sökunar á bullinu sínu um Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi var örugglega ekki par sáttur með bullið í bróður sínum.
Lionel Messi var örugglega ekki par sáttur með bullið í bróður sínum. AP/Jean-Francois Badias

Matias Messi, bróðir Lionel Messi, gerði lítið úr afrekum Barcelona áður en bróðir hans mætti á svæðið en hefur nú þurft að biðjast afsökunar á öllu saman.

Matias lét móðan mása á Twitch reikningi sonar síns þegar hann fékk spurningar um Lionel Messi og Barcelona.

Hann lét meðal annars það út úr sér að enginn þekkti Barcelona áður en Messi kom þangað og að hann útilokaði það að Lionel Messi myndi einhvern tímann snúa aftur. Hann talaði líka um að bikarsafnið væri í raun Messi safn en ekki safn Barcelona.

Ummælin um að Messi hafi komið Barcelona á kortið eru í besta falli kjánaleg.

Lionel Messi lék sinn fyrsta leik með Barcelona árið 2004 en þá hafði félagið sextán sinnum unnið spænska titilinn og 24 sinnum unnið spænska bikarinn. Félagið hafði einnig unnið Evrópukeppni Meistaraliða einu sinni og Evrópukeppni bikarhafa fjórum sinnum.

Með liðinu höfðu líka leikið margir af bestu leikmönnum heims á sínum tíma eins og Johan Cruyff, Diego Maradona, Romário, Ronaldo, Hristo Stoichkov, Rivaldo og Ronaldinho svo einhverjir séu nefndir.

„Ég vil biðjast afsökunar á því sem ég sagði á samfélagsmiðlum. Ég var bara að grínast með syni mínum og vinum. Hvernig ætti ég að sagt svona hluti um frábært félag eins og Barcelona sem hefur gefið svo mikið til Leo og minnar fjölskyldu? Ég vil biðja alla afsökunar og sérstaklega alla stuðningsmenn Barcelona,“ skrifaði Matias Messi á Instagram síðu sína.

Lionel Messi spilaði í tuttugu ár með Barcelona og vann 35 titla með félaginu eða fleiri en nokkur annar leikmaður í sögu félagsins. Hann vann spænsku deildina tíu sinnum, spænska bikarinn sjö sinnum og Meistaradeildina fjórum sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×