Wolves valtaði yfir Liverpool á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Leikmenn Liverpool virtust heillum horfnir á löngum stundum og sigur Wolves afar sannfærandi.
Wolves byrjaði af miklum krafti og komust í 1-0 strax á 5.mínútu eftir sjálfsmark Joel Matip. Varnarleikur Liverpool var mjög ósannfærandi og markið klaufalegt. Á 12.mínútu var staðan síðan orðin 2-0 en þá skoraði Craig Dawson með þrumuskoti úr teignum eftir vandræðagang í vörn gestanna.
Staðan í hálfleik 2-0 en Liverpool mætti öflugra út í síðari hálfleikinn og sótti meira. Það nýttu Úlfarnir sér því Ruben Neves skoraði þriðja mark liðsins á 71.mínútu eftir vel útfærða skyndisókn.
Þarna voru úrslitin ráðin og stuðingsmenn Wolves byrjaðir að fagna áður en flautan gall, fögnuðu hverri sendingu sinna manna og niðurlægingin algjör fyrir Liverpool.
Lokatölur 3-0 Wolves í vil en fyrir leikinn í dag hafði liðið aðeins skorað tólf mörk í tuttugu deildarleikjum.