Idol keppendurnir Guðjón Smári og Bía voru gestir Gústa B í Veislunni á FM957 í gær. Í þættinum ræddu þau meðal annars um það hvaða áhrif Idol þátttakan hefur haft á líf þeirra hingað til.
Þá tókst Gústa B að plata Guðjón Smára til þess að gera símahrekk. Fyrirmælin voru þau að Guðjón skyldi hringja í bónda úti á landi og vera smá með stjörnustæla. Þá átti hann að reyna að sannfæra viðkomandi um að kjósa sig í kvöld þegar fyrsta beina útsending Idol fer fram.
Það var Aðalsteinn, bóndi á Akureyri, sem var fórnarlamb hrekksins. Aðalsteinn hafði fylgst vel með Idolinu og hafði sínar skoðanir á málunum. Í símtalinu bauðst Guðjón meðal annars til þess að borga honum pening fyrir hans atkvæði.
„Það þýðir ekkert að kaupa mig,“ heyrist Aðalsteinn bóndi segja áður en hann skellir á.
Hér að neðan má hlusta á símahrekkinn í heild sinni. Viðtalið við Guðjón og Bíu hefst á mínútu 24:45 en símahrekkurinn hefst á mínútu 55:32.