Tónlist

Notar tónlistina til að skilja sjálfa sig

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Nína Solveig, jafnan þekkt sem Lúpína, var að senda frá sér sína fyrstu sóló plötu. Hún ræddi við blaðamann um sköpunargleðina, tilfinningar, listina og lífið.
Nína Solveig, jafnan þekkt sem Lúpína, var að senda frá sér sína fyrstu sóló plötu. Hún ræddi við blaðamann um sköpunargleðina, tilfinningar, listina og lífið. Vísir/Vilhelm

Nína Solveig Andersen er 20 ára gömul tónlistarkona sem notast við listamannsnafnið Lúpína. Hún var að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu sem ber heitið Ringluð og samdi lögin út frá persónulegum lífsreynslum sem aðstoða hana við að skilja tilfinningarnar sínar betur.

Blaðamaður hitti Nínu í kaffi og fékk að heyra nánar frá listinni og lífinu en í pistlinum hér að neðan frumsýnum við einnig tónlistarmyndband við lagið Tveir mismunandi heimar sem er að finna á plötunni.

Nína Solveig, jafnan þekkt sem Lúpína.Vísir/Vilhelm

Nína er hálf íslensk og hálf norsk. Faðir hennar er frá Noregi en er þó búsettur á Íslandi og Nína hefur alist upp sem Íslendingur. Hún flutti til Lillehammer í fyrra til að fara í LIMPI, alþjóðlegan tónlistarskóla í Lillehammer sem er lítill skíðabær í Noregi. Eftir námið fluttist hún til Osló þar sem hún er nú búsett og vinnur þar í tónlist.

Í spilaranum hér að neðan má sjá tónlistarmyndbandið við Tveir mismunandi heimar. Myndbandið er gert með yfir 3300 perlum á hverjum ramma og næstum 2000 myndum sem eru settar saman í stop motion og tók því dágóðan tíma í framkvæmd.

Ákveðin í að læra á fiðlu

„Mamma segir alltaf að ég hafi verið þriggja ára þegar ég sagðist fyrst vilja læra á fiðlu,“ segir Nína um upphaf tónlistaráhugans. Móður hennar fannst hún of ung þá en þegar Nína byrjaði í grunnskóla fékk hún sínu framgengt og byrjaði í fiðlunámi.

„Ég var út alla menntaskólagönguna að læra á fiðlu og það hefur alltaf verið uppsprettan, það sem kynnti mig fyrir tónlistinni.“

Nína útskrifaðist úr MH vorið 2021 og segist í kjölfarið hafa verið óviss um hvert hún vildi stefna.

„Tónlistarkonan Hildur Kristín var að kenna mér lagasmíði í MÍT og hún sagði mér frá skóla í Noregi sem heitir LIMPI sem hún hélt ég gæti örugglega fílað mig í. Þannig ég ákvað að sækja um og komst svo inn í það nám. Ég hafði aldrei tekið ákvörðun um hvort ég ætlaði að fara í þennan skóla, mig langaði bara að sækja um til að sjá hvort það væri einhver möguleiki. Svo ákvað ég að kýla á það eftir að ég komst inn.“

Tónlistarferill Nínu byrjaði á fiðlunámi þegar hún var ung.Vísir/Vilhelm

Skólinn opnaði nýjar dyr

Um var að ræða eins árs nám sem Nína segir hafa mótað sig mikið.

„Mér líður eins og að í gegnum námið hafi ég áttað mig smám saman áttað mig á því að þetta væri eitthvað sem ég vildi prófa, allavega núna, og sjá hversu langt ég næði að fara með tónlistina.

Þetta var líka ólík nálgun á tónlist frá því sem ég er vön. Ég var svolítið í klassíkinni og að pródúsera og semja fyrir það en þetta var á allt öðru leveli. Þarna eru allir að hugsa um ferla, hvernig maður gerir allan pakkann, útgáfur og allt svoleiðis. Þá byrjaði þetta að hljóma mjög spennandi.“

Nína ákvað því að skólanum loknum að taka eitt ár þar sem hún einblínir einungis á tónlistina og sér svo hvernig allt þróast.

Nína sendi frá sér plötuna Ringluð síðasta föstudag en hafði áður sent frá sér þrjú lög.Magnús Andersen/Grafík: Einar Andersen

Eitt lag á dag

Í náminu kynntist hún mikið af tónlistarfólki og pródúsentum og einbeitir sér nú aðallega að lagasmíði og söng.

„Ég pródúsera eitthvað sjálf líka á öllum lögunum. Ég vil gera radd pródúseringar mínar sjálf þannig það er vanalega eitthvað samstarf í gangi. Sama þó ég sitji ekki við lyklaborðið þá get ég sagt hvernig ég vil hafa hlutina með þá þekkingu sem ég hef.“

Nína segir námið hafa verið óhefðbundið og aðal fókusinn hafi verið að semja lög.

„Fyrst var það að semja lag í hverri viku, svo þróaðist það yfir í að semja eitt lag á dag. Þannig að ég samdi næstum því 70 lög, valdi út frá þeim átta eða níu lög sem mér leist best á og ákvað að þau yrðu að plötu. 

Þannig þetta gerðist næstum óvart út frá skólaverkefni.“

Eins og áður segir ber platan heitið Ringluð og segir Nína að hún lýsi því sem hún var að ganga í gegnum.

„Á þessum tíma var ég nýflutt að heiman og bjó í nýju landi. Ég var að taka fyrstu skrefin sem fullorðin manneskja, upplifa fyrstu ástarsorgina og allt í einu voru fullt af tilfinningum sem ég þurfti einhvern veginn að koma í form.“

Tónlistarverkefni Nínu eða Lúpínu þróaðist í kringum miklar breytingar í hennar lífi.Magnús Andersen/Grafík: Einar Andersen

Færir tilfinningarnar yfir í lög

Tónlistin reynist Nínu góð leið til að vinna úr ýmsu.

„Maður fer svo mikið að greina tilfinningarnar sínar. Hvað er þetta sem ég er að finna núna og er þetta eitthvað sem gæti orðið lag? 

Svo kemur einhver ný tilfinning og maður hugsar: Ah ég hef ekki skrifað um þetta áður, ég skil ekki alveg þessa tilfinningu, og svo sest ég niður og reyni að skilja hana og þá skil ég hana betur. 

Þetta er mjög góð útrás og mér líður eins og ég noti þetta til að skilja sjálfa mig.“ 

Þó bætir hún við að maður sé alltaf að kynnast sjálfri sér upp á nýtt enda lífið og tilveran stöðugt að þróast.

„Mér finnst líka eins og platan komist ekki að niðurstöðu, það er ekki eins og ég sé búin að skilja mig og þá sé málið afgreitt. 

Ég valdi þetta orð, ringluð, því lögin eru öll að lýsa einhverjum tilfinningum sem ég er að kasta fram og til baka. Núna líður mér svona og svo líður mér einhvern veginn öðruvísi. 

Tónlistarstíllinn er líka hér og þar, eitthvað sem er mjög rólegt, eitthvað sem er miklu stærra, eitthvað sem er elektrónískt, svo er ég með bossa nova lag og þetta er smá eins og ég sé að finna mig í tónlistinni og lífinu. Maður er alltaf að stækka og alltaf að þroskast og ég veit ekki hvort við komumst að einhverri einni niðurstöðu.“

Lúpína hlakkar til að fara að spila á tónleikum.Magnús Andersen

Strax farin að huga að næstu plötu

Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá Nínu, sem langar að koma fram meira og spila nýja efnið fyrir áhorfendur. 

„Ég er strax farin að pæla hvernig næsta plata verður, þó ég sé ekki komin að neinni niðurstöðu þar heldur.“

Hún stefnir á að eyða sumrinu í Noregi og vinna að meiri tónlist en hún segist finna mun á norsku og íslensku tónlistarsenunni.

„Fólk er svo opið fyrir samstarfi í Noregi, allt snýst um að fara í sessions, vinna með mismunandi pródúserum og lagahöfundum og prófa alls konar mismunandi teymi.“

Upplifun hennar á íslensku senunni er að það sé meira afmarkaður hópur sem vinnur alltaf saman.

„Það er eins og fólk sé aðeins passasamara með sitt hér heima og að þau vilji halda í sitt.

Það eru þó auðvitað fullt af leiðum hér heima til að koma sér á framfæri. Fyrst var ég í hljómsveit sem heitir Dymbrá, við tókum þátt í músíktilraunum og byrjuðum að spila á tónleikum hjá Póstdreifingu sem var mjög opinn vettvangur. 

Það er frekar opið í gegnum ákveðnar leiðir að koma sér áfram að spila. Allt sem póstdreifing er að gera opnar alls konar dyr.

Á sama tíma er líka flókið að mynda tengingar og reyna að kynnast fólki. Mér líður kannski smá eins og þetta sé stór vinahópur. Sumir pródúsentar eru alltaf að vinna með sama tónlistarfólkinu og þetta er svolítið mikil búbbla stundum.“

Nína segist finna mun á íslensku og norsku tónlistarsenunni.Vísir/Vilhelm

TikTok og alþjóðlegur hlustendahópur

Aðspurð hvort það sé erfitt að senda frá sér persónuleg lög sem allir geta heyrt segir Nína:

„Það er mjög skrýtið og ég reyni að hugsa ekki of mikið um það því þá finnst mér það smá óþægilegt.

Ef ég pæli í öllum sem hafa hlustað á það sem ég er að segja í lögunum þá er það svona næstum því yfirþyrmandi. Mér líður samt smá eins og ég hafi vanist því í skólanum því þá þurftum við alltaf að flytja lögin okkar fyrir bekkinn. 

En ég var reyndar búin að vera að semja á íslensku allan tímann þannig ég var að þýða textann og gat svolítið stýrt því hvernig ég gerði það,“ 

segir Nína hlæjandi.

Magnús Andersen

„Það sem ég hugsa mest út í er að fjölskyldan mín heyrir þetta allt en ég sendi þeim þetta alltaf áður en þetta kemur út. Líka vinir, sérstaklega vinir sem maður talar ekki mikið við akkúrat núna, það finnst mér eiginlega óþægilegast. 

En handahófskennt fólk má alveg halda það sem það vill um mig. Það er líka áhugavert ef þau sjá sig í lögunum og eru ekki endilega að hugsa hvað ég er að pæla.“

Hún segist mjög ánægð með viðbrögðin sem hún hefur fengið hingað til og að þau komi sér skemmtilega á óvart.

„Ég var ekki að búast við miklum viðbrögðum en ég er mjög ánægð með þau. Ég hef verið að pósta lögunum mikið á TikTok og ég held að megin hlustendahópurinn komi þaðan. Það er svo erfitt að skilja þetta forrit og maður veit aldrei hvað kemur út úr því, stundum kemur ekkert og stundum kemur fullt. 

Það er mjög áhugavert að sjá hvaða fólk hefur fundið mig þar og byrjað að hlusta á tónlistina. Þetta er eiginlega ólíklegasta fólk því þetta er mest fólk frá útlöndum og eiginlega ekkert Íslendingar.“

Plötuumslagið fyrir Ringluð var samstarfsverkefni hjá Nínu og bræðrum hennar. Magnús Andersen/Grafík: Einar Andersen

Skapandi uppeldi

Nína sækir meðal annars tónlistarinnblástur til Emiliönu Torrini og hefur litið upp til hennar síðan hún var lítil, ásamt því að hlusta mikið á aðra íslenska tónlistarmenn á borð við Valdimar, Sykur, Björk og Moses Hightower. Hún ólst einnig upp í skapandi umhverfi en báðir bræður hennar æfðu á hljóðfæri.

„Öll fjölskyldan mín er frekar skapandi, mamma og pabbi eru arkítektar og svo á ég tvo bræður, annar er ljósmyndari, Magnús Andersen, og hinn er grafískur hönnuður, Einar Andersen. Mér líður líka eins og verkefnið mitt sé smá fjölskylduverkefni því Magnús tekur myndirnar og Einar gerir grafísku hönnunina fyrir allt efnið.“

Þegar fjölskyldan fór til Ítalíu í páskafrí náðu systkinin að sameina krafta sína og tóku mikið af myndum fyrir nýju plötuna.

Ein af myndunum sem voru teknar í fjölskyldufríinu fyrir tónlist Lúpínu.Magnús Andersen/Grafík: Einar Andersen

„Allir í kringum mig eru skapandi, þetta er smá í loftinu heima á samt frekar óbeinan hátt. Það er ekki verið að skipa neinum að skapa, það er bara oft verið að mála og hlusta á tónlist og svona.“

Nína sjálf hefur mikinn áhuga á almennri myndlist.

„Árið 2016, þegar ég var fjórtán ára, hannaði ég skúlptúr með foreldrum mínum heima við eldhúsborðið sem við sentum inn í samkeppni um aðkomutákn Garðabæjar. Einhverju seinna unnum við keppnina og nú er skúlptúrinn kominn upp við landamæri Garðabæjar á Kringlumýrarbraut.“

Skúlptúrinn við aðkomu Garðabæjar sem Nína og foreldrar hennar hönnuðu saman. Teiknistofan Tröð

Platan er unnin í samstarfi við samnemendur Nínu í norska poppframleiðsluskólanum LIMPI (Lillehammer Institute of Music Production and Industries). Tónlistarfólk frá átta löndum (Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Singapúr, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Brasilíu) kemur að vinnslu plötunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×